Ekkert sem heldur þér lengur á Egilsstöðum en það tekur að fylla á tankinn
Það getur stundum verið erfitt líf að markaðssetja sig og gera öllum til hæfis. Inn á borð Tístsins bárust nýverið ferðalýsingar um þéttbýlið á Egilsstöðum sem ekki er beint hægt að segja að auglýsi hann sem fallegasta eða skemmtilegasta stað Austurlands.Lýsingin á Egilsstöðum í hinum vinsæla ferðahandbókaflokki Lonely Planet byrjar til dæmis þannig: „Hversu mikið sem þú leggur á þig við að reyna að finna einhverja dulda töfra muntu komast að því að hinir limalöngu Egilsstaðir einkennast ekki af stórkostlegri fegurð. Staðurinn er aðalmiðstöð samgangna og verslunar í fjórðungnum. Því miður er það eins heillandi og það hljómar."
Ekki tekur betra við þegar Egilsstöðum er flett upp á ferðavefnum TotalIceland. „Það er ekki þar með sagt að þú baðir þig í menningu staðarins eða vingjarnleika heimamanna. Þú munt ekki gera það," segir meðal annars um staðinn.
Greinarhöfundur segir sérstaka stemmingu ríkja á Egilsstöðum sem sé í raun fyrsta stoppistöð þeirra sem komi með Norrænu og sömuleiðis Reykvíkinga á ferð um Hringveginn. Þá sé sjarmi yfir bóndanum á Egilsstöðum sem heyi túnin gegnt flugvellinum.
„En hvernig sem á það er litið er ekki margt þar sem heldur þér lengur en það tekur að fylla á tankinn nema þú notir staðinn sem miðstöð til að skoða þá fjölmörgu glæsilegu staði sem Austurland hefur upp á að bjóða."
Þá er tekið fram að eina safn bæjarins, Minjasafn Austurlands, sé ágætt fyrir þá sem hafi „lágmarks áhuga á gömlu íslensku dóti en kveiki ekki á nokkurn hátt í kynlífinu."
Eftir ágæta umsögn um gistimöguleika staðarins er komið að niðurlaginu um miðbæinn á Egilsstöðum sem er „ekki á nokkurn hátt eftirtektarverður og í raun í útjaðri bæjarins við Hringveginn. Þar er fátt áhugavert nema stórmarkaðir, minjagripaverslanir og að sjálfsögðu sé tjaldsvæðið nálægt."
Það er kannski ekki skrýtið þótt unglingahljómsveit frá Seyðisfirði hafi á sínum tíma sungið um partýdýrið sem dó úr leiðindum af því að búa á Egilsstöðum...