Heimsfrægur háhyrningur úr Berufirði: Sagan af Tilikum

tilikum taminnRíkissjónvarpið sýndi í síðustu viku heimildamyndina „Blackfish" sem vekur upp spurningar um réttmæti þess að hafa háhyrninga til sýnis í sædýragörðum, meðal annars vegna þess að þeir geta verið hættulegir þjálfurum sínum. Tístið fylgdist áhugasamt með enda Austfirðingur þar í aðalhlutverki.

Aðalstjarna myndarinnar er karldýrið Tilikum en eftir því sem næst verður komist telst hann Austfirðingur, nánar til tekið ættaður úr Berufirði þar sem hann mun hafa verið veiddur þann 9. nóvember árið 1983, þá um tveggja ára gamall.

Hins vegar er ekki víst að rétt sé fyrir Austfirðinga að hreykja sér af uppruna hvalsins sem hefur þrjú mannslíf á samviskunni.

Alls voru 48 háhyrningar fangaðir við Íslandsstrendur á árunum 1976-1988 og seldir úr landi en flestir þeirra voru veiddir út af Austfjörðum.

Árið 1983 var það félagið FAUNA, sjálfseignarfélag áhugamanna um náttúruvernd sem hafði það að markmiði að kynna ungu fólki náttúru og dýralíf, sem var með leyfi til að fanga fimm lifandi háhyrninga.

Hvalirnir voru almennt fangaðir á bátnum Guðrúnu GK og þeim síðan komið í Sædýrasafnið í Hafnarfirði, sem fékk flest leyfanna. Þar dvöldu hvalirnir í einhverjar vikur og ef þeir virtust heilir heilsu voru þeir fluttir áfram í erlenda dýragarða.

Í Morgunblaðinu þann 15. nóvember árið 1983 er greint frá því að fyrsti háhyrningurinn sem veiðst hafi sé mættur í sædýrasafnið og sé þess beðið að hann verði sýningarhæfur.

Í ritgerð Jóhanns Sigurjónssonar og Stephen Leatherwood um þessar háhyrningaveiðar Íslendinga kemur fram að þann mánuðinn hafi þrír háhyrningar verið fangaðir, tvö karldýr og eitt kvendýr. Þau voru öll seld úr landi.

Draumurinn að stinga höfðinu í ginið

Í Morgunblaðinu í byrjun mars árið 1984 er sagt frá því að þrír háhyrningar séu í sædýrasafninu og byrjað er að reyna að temja þá, enda dýrin verðmætari þannig.

Tekið er fram að þetta sé í fyrsta sinn sem það sé reynt hérlendis. Þjálfarinn ber sig vel, segir góðan árangur hafa náðst eftir stutta þjálfun og bætir því við að „draumurinn sé að stinga höfðinu inn í gapandi ginið."

Leiða má að því líkum að þar sem ekki voru veidd fleiri dýr fyrr en í nóvember 1984 sé Berfirðingurinn Tilikum eitt þessara þriggja dýra, mögulega það sem byrjað var að temja.

Íslensk stjórnvöld vildu ekki hvalinn heim

Tilikum, sem ber gælunafnið Tilly, var seldur í sædýragarðinn SeaLand í Kanada. Garðurinn átti þrjá háhyrninga sem voru seldir eftir að hafa drepið þjálfara árið 1991. Garðurinn lokaði í kjölfarið.

Tilikum fór í SeaWorld garðinn í Orlando í Bandaríkjunum þar sem hann hefur sýnt gestum, þar á meðal fjölda Íslendinga, listir sínar síðan.

Vandkvæði komu hins vegar upp við flutninginn og um tíma leit út fyrir að bandarísk yfirvöld myndu fyrirskipa að hvalnum yrði sleppt aftur í sitt náttúrulega umhverfi. Varaforseti SeaWorld sendi íslenskum stjórnvöldum bréf og spurðist fyrir um þann möguleika en lýsti um leið þeirri skoðun sinni að það væri ekki æskileg leið.

Undir það tók Þorsteinn Pálsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra. Í svarbréfi ráðherrans er vísað til ráðlegginga vísindamanna sem vara við að Tilikum geti borið með sér sjúkdóma í íslenska hvalastofna auk þess sem óvíst sé hvernig hann höndli lífið í náttúrunni. Ráðuneytið frábiður sér að taka aftur við Tilikum eða nokkrum öðrum háhyrninganna.

Einum þeirra, Keikó, var þó skilað sex árum síðar.

Eftir að hafa drepið annan þjálfara árið 2010 var Tilikum tekinn úr sýningum. SeaWorld var dæmt til skaðabóta fyrir gáleysi og eru þjálfarar nú ekki lengur með hvölunum ofan í lauginni.

Tilkum snéri aftur til sýninga um ári síðar. Hann hefur á tíma sínum í SeaWorld getið af sér fjölda afkvæma.

Tilikum mun vera stærsti háhyrningurinn sem er í haldi manna í dag. Stofnað hefur verið til herferða til að fá Tilikum sleppt en þær hafa ekki borið árangur þrátt fyrir að hundruð þúsunda hafi lagt nafn sitt við þær.

Rétt er að taka fram að sumar heimildir herma að Tilikum hafi verið fangaður ári fyrr en hér er gengið út frá. Það breytir því þó ekki að ferill hans í helstu atriðum eins og hér er lýst.

Hann er alltént Austfirðingur - hvort sem okkur líkar betur eða verr!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar