Byltingarkenndar aðgerðir í þágu eldri borgara
Það fór vart fram hjá nokkrum manni að fyrir skemmstu var svonefnd kjördæmavika Alþingis þar sem þingmenn létu sjá sig og héldu fundi „heima í héraði“.Einn af þeim sem lét sjá sig á heimslóð var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sem að sjálfsögðu sat meðal annars fyrir svörum á opnum fundi á Fljótsdalshéraði, en hann er sem kunnugt er búsettur á Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð.
Á fundinum kenndi ýmissa grasa og margvíslegar spurningar voru bornar upp. Ein þeirra sneri að því hvað núverandi ríkisstjórn væri að gera fyrir eldri borgara og varð Sigmundi ekki skotaskuld úr því að svara því.
„Jú, Broddi, við höfum til dæmis gert einn þeirra að ráðherra og erum svo að skoða málefni annarra með opnum huga.“
Það er mál manna að þessi óvænta nálgun á málefni eldri borgara feli í sér sér nokkuð stór pólitísk tíðindi. Eins og frægt er hefur Sigmundur Davíð fram að þessu verið hlynntur almennum aðgerðum, samanber Leiðréttinguna víðfrægu. Nú er virðist hins vegar boðuð afar sértæk nálgun á þennan málaflokk og verður spennandi að sjá hvernig þessu verkefni vindur fram.
Sigmundur Davíð var þarna vitaskuld að vísa til skipunar Sigrúnar Magnúsdóttir í embætti Umhverfis- og auðlindaráðherra en hún er rúmlega sjötug að aldri. Í umræðum á fundinum kom einnig fram hjá Sigmundi að það væri reyndar þannig að honum skildist að sjötugt væri nú til dags bara á pari við það sem fimmtugt var fyrir nokkrum árum síðan og raunar væri Sigrún enn yngri en það í anda.