Sjálfstæðisbarátta Reykvíkinga - Óvæntur liðstyrkur

skjaldarmerki.ny.reykjavikMálefni Reykjavíkurflugvallar taka á sig ýmsar myndir og fátt er betur til þess fallið að láta mönnum hitna í hamsi en deilur um hann.

Síðasta lota í þeirri eilífu orrustu kom í liðinni viku þegar að frumvarp þingflokks Framsóknarflokksins, undir forystu Höskuldar Þórhallssonar, þar sem gert er ráð fyrir að skipulag helstu flugvalla verði fært frá ríki til sveitarfélaga, var snaggaralega afgreitt úr umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Brugðust ýmsir ókvæða við, en lengst gekk þó að líkindum Hilmar Sigurðsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í nýju stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar. Hann lagði fram tillögu þess efnis að efnt yrði til íbúakosninga þar sem kosið yrði um hvort Reykjavík ætti að lýsa yfir sjálfstæði sínu og verða að borgríki.

Málinu var frestað og ekki hefur frést meira af afdrifum þess. En það má auðvitað velta fyrir sér hver áhrif þessarar breytingar yrðu. Það er líklegt að Kópavogur, Hafnarfjörður og Akureyri myndu bítast hart um að verða ný höfuðborg Íslands. Og það má líka velta því fyrir sér hvort að nýtt borgríki þurfi ekki á flugvelli að halda til að halda uppi alþjóðlegum samskiptum. Og hvað yrði um Seltjarnarnes??

En tilfellið er að það líst ekkert öllum utan Reykjavíkur illa á að borgin verði sjálfstætt ríki. Benedikt V. Warén (Pelli) er a.m.k. einn þeirra og hefur þegar ákveðið að leggja hugmyndinni lið með sínum hætti.

Hann hannaði meðfylgjandi skjaldarmerki fyrir nýja borgríkið, og hefur að sögn ekkert á móti því að láta þessa hönnun af hendi endurgjaldslaust í kveðjuskyni...

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar