Búið að afhenda Fjarðabyggð Ómarsbjölluna
Fjarðabyggð er þegar komin með sigurgrip spurningakeppninnar Útsvars í hendurnar þótt úrslitaþátturinn sé ekki fyrr en í kvöld.
Ómarsbjallan skipti um hendur á mánudagsmorgun á sameiginlegum fundi bæjarráða Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs. Fjarðabyggð mætir Akranes í úrslitum í kvöld en Fljótsdalshérað vann í fyrra og hefur varðveitt bjölluna síðan.
Fulltrúi Fjarðabyggðar tók við bjöllunni í þeim tilgangi að koma henni suður til Reykjavíkur fyrir úrslitaþáttinn í kvöld en fékk hana afhenta með þeim orðum að það væri til að halda henni eystra.
Það Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, sem afhenti bjölluna. Hann hefur verið sérstakur gæslumaður hennar undanfarið ár en eins og frægt varð gleymdist bjallan í bílaleigubíl sem sigurliðið hafði í fyrra hafði til umráða í kringum keppnina í Reykjavík.