Hin pólitíska tilraunastöð íhaldsins

Um helgina verður haldið upp á að 70 ár eru liðin síðan Egilsstaðakauptún var stofnað. Samhliða Egilsstöðum hefur líka byggst upp þéttbýli hinu megin fljótsins, Fellabær. Þótt Lagarfljótið sé djúpt hefur stundum verið grunnt á því góða milli íbúanna við sitt hvorn brúarsporðinn.


Á vegi Tístsins varð heilsíðuviðtal úr Þjóðviljanum við Sigurð Gunnarsson, smið á Egilsstöðum frá því í janúar 1963. Sigurður ræðir þar hvernig gangi að byggja upp Egilsstaði og framtíðarmöguleika þorpsins undir fyrirsögninni „Borg í vöggu“

Áður en viðtalið sjálft hefst eyðir blaðamaðurinn töluverðu púðri í að lýsa bæði hinu eiginlega landslagi umhverfis bæinn, sem um liggja sex þjóðleiðir, sem og hinu pólitíska landslagi.

Þar segir:

„Síðastnefnda leiðin liggur raunar um norðurbakka Lagarins, en sá bakki tilheyrir ekki Egilsstöðum, en á honum kvað íhaldið vera að reisa „tilrauna"-úthverfi frá Egilsstöðum, sem hvorki lýtur lögum né skattheimtu Egilsstaðabæjar.

Við brúarsporðinn norðanfljóts er verzlun ein þar sem íhaldið kvað gera „tilraunir“ með að dreifa viðskiptum bænda frá kaupfélaginu. Þar kvað líka vera hin pólitíska „tilraunastöð“ íhaldsins.

Hefur forstöðumaður „tilraunastöðvarinnar“, Jónas Pétursson, verið fluttur frá Skriðuklaustri og settur þar niður. Kvað Þorvaldur Garðar hafa séð það af þjóðkunnri skarpskyggni sinni og gáfum að maður með reynslu Jónasar Péturssonar af sauðfjárræktarbúinu á Skriðuklaustri væri sjálfsagður forstöðumaður hinna pólitísku sauðaræktartilrauna íhaldsins á Austurlandi, þarna í landi Ekkjufells.“

Hin glataða paradís

Blaðamaðurinn rekur áfram landslagið og liggur leið hans næst upp í Egilsstaðaskóg.

Lengra uppi á ásunum er Egilsstaðaskógur, og ekki hefur verið farið langt eftir veginum til Úthéraðs og Seyðisfjarðar þegar afvegur liggur inn í skóginn. Þar í fallegu rjóðri rís hús eitt mikið og vandað er Sjálfstæðisflokkurinn h/f reisti á sínum tíma.

Landið undir húsi þessu á Sveinn bóndi á Egilsstöðum, og þegar Sjálfstæðisflokkurinn h/f tók hinn ríkislaunaða tilraunastjóra fram yfir óðalsbóndann á Egilsstöðum setti Sveinn akkeriskeðjur í hlið paradísarinnar. En inni í skóginum bíður hin mikla bygging afgirt og yfirgefin, hin glataða paradís íhaldsins á Austurlandi.“

„Þið byggið eftir skipulagi – er það ekki?“

Þegar talað er við smiðinn berst talið eðlilega að húsbyggingum í hinu nýja þorpi. Sigurður segir að þar sé húsnæðisskortur, í bæinn hafi flutt ungt og efnilegt fólk úr ýmsum áttum sem eigi erfitt með að fá byggingalán.

Hann tekur dæmi af flugvallarstarfsmanni sem flutt hafi fjölskyldu sína á Norðfjörð en búi sjálfur í hótelherbergi á Egilsstöðum.

Blaðamaðurinn spyr þá „þið byggið eftir skipulagi – er það ekki?“ og Sigurður svarar:

„Jú, hér í Egilsstaðaþorpi er byggt eftir skipulagi — en töluverð brögð virðast að því að skipulaginu sé breytt!“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.