Hvalveiðar á Egilsstöðum
Fyrirsögn Vísis frá í gær að Svandís Svarsdóttir matvælaráðherra muni tilkynna um ákvörðun um hvalveiðar á Egilsstöðum hefur orðið að miklu háðsvopni í höndum netverja þar sem Egilsstaðir hafa sjaldan verið þekktir fyrir mikla útgerð.Svandís er komin austur í tilefni af ríkisstjórnarfundi eystra. Dagskrá fundarins er ekki opinber fyrirfram en þó hefur verið staðfest að hún muni tilkynna um ákvörðun sína um mögulega framlengingu hvalveiðibanns sem rennur út í dag.
Fyrirsögn Vísis var skýrt afmörkuð um hvalveiðar á Egilsstöðum. Til þessa hafa skilyrði lífríkis í jökulleirnum í Lagarfljóti ekki verið talin vænleg, einkum ekki eftir að Jökulsá á Dal var veitt í það með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar, þótt síðan hafi vissulega veiðst stöku smáfiskar.
Einhverjir hafa tekið skilaboðin nærri sér og búa sig undir að birgja sig inni í húsum sínum þann tíma sem hvalveiðar verða mögulega leyfðar. Aðrir hafa áhyggjur af einu skepnunni í fljótinu sem mögulega gæti líkst stórhveli, Lagarfljótsorminum.
Svo nú er beðið eftir ákvörðun ráðherrans og hvort hvalveiðifloti Kristjáns Loftssonar komi brátt stormandi inn Héraðsflóann.
Mynd: Ronald Herzer