Efnið nýtist í vegagerð við Norðfjarðargöng
Verktakar hafa í dag unnið við að keyra í burtu efni sem grafið var upp úr Hlíðarendaá til að bjarga brúnni yfir ána í vatnavöxtum í gær.
Áætlað er að um 12-14 þúsund rúmmetrar af möl og framburði hafi verið grafnir upp úr ánni í gær. Hluti efnisins nýtist í vegagerð að Norðfjarðargöngum sem nú er í gangi.
Gröfur unnu í árfarveginum frá því um klukkan fjögur í gær fram til klukkan tvö í nótt. Áin hafði með framburði sínum stíflað farveginn undir brúnni. Vörubílar hafa nær allan tíman verið að keyra efni í burtu.
Tjónið á svæðinu verður metið á næstunni, skemmdir eru á veginum, einhverjar neðan í brúnni og mögulega á húsi neðan við sem var umflotið vatni. Tveimur íbúum hússins var ráðlagt að fara að heiman í gær sem þeir og gerðu.
Nokkrar litlar spýjur féllu niður lækjarfarvegi í fjöllunum ofan Eskifjarðar.
Skriða féll á veginn í Mjóafirði og lokaði honum. Vegagerðin opnaði hann á ný í dag. Austurfrétt hefur ekki spurnir af skriðuföllum víðar af Austfjörðum.