Norðfjarðargöng

Norðfjarðargöng: Byrjað að klæða veginn í Fannardal

Klæðning vegarins í Fannardal hófst í dag þegar klætt var frá vegamótum í Norðfirði inn að nýju brúnni yfir ána inni í dalnum. Aðeins verður sett einfalt lag af klæðningu í haust.

„Menn eru ekki hrifnir af að klæða tvöfalt þegar komið er fram á þennan tíma. Í gegnum árin hefur gefist ágætlega að keyra einn vetur á einföldu lagi. Það sest ekki endanlega fyrr en í vor,“ segir Guðmundur Þór Björnsson hjá verkfræðistofunni Hniti sem hefur eftirlit með verkinu.

Í dag var loks byrjað að klæða í Fannardal en kaflinn frá brúnni og inn að göngunum sjálfum verður klæddur á næstu vikum. Búið er að klæða göngin sjálf og Eskifjarðarmegin.

Rigningarnar síðustu vikur hafa tafið fyrir vegagerðinni í Fannardal. „Þær hafa gert okkur lífið verulega erfitt síðustu tvær vikur. Ausandi rigning er það sem við þurfum síst þegar við vinnum í þessum verkþáttum.“

Inni í göngunum sjálfum voru rafvirkjar að setja upp dagljósabúnað. Þá stendur yfir vinna við fjarskiptamöstur við báða gangamunnana, tengingar í spennustöðvum, tæknirýmum, töflurýmum og öryggiskerfi.

Að sögn Guðmundar eru rafvirkjar langt komnir með vinnu sína og eiga aðeins eftir að setja upp loftræstiblásara. Það verður gert innan skamms.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.