Unnið að frágangi við Norðfjarðargöng
Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á þau verk sem þarf að klára áður en Norðfjarðargöng verða opnuð eftir tvær vikur. Skilti á vegum sem vísa á göngin verða sett upp á næstu dögum.Lokið er við að klæða vegi í bili en starfsmenn Suðurverks hafa unnið að frágangi beggja megin ganga. Í Eskifirði hefur verið unnið við undirstöður skilta, símaklefa og lokunarslár. Verið er að grafa fyrir fyrir rafstreng vegna ljósastaura og undirbúningi að þeir verði reistir.
Á næstu dögum verða sett upp vegrið, skilti og gengið frá á steyptum eyjum við vegamót Norðfjarðarvegar og Eskifjarðarvegar.
Norðfjarðarmegin hefur verið unnið að frágangi athafnasvæðisins næst gangamunna og vegagerð að tengihúsi utan á vegskálanum. Einnig er unnið að frágangi vegfláa og vegrása innan við brú á Norðfjarðará, auk ýmissa annarra frágangsverka vítt og breitt um vinnusvæðið.
Inni í göngum er búið að steypa stéttar milli kantsteins og bergs. Settir hafa verið upp blásarar í lofti ganganna og er því verki nú að ljúka. Þá hefur einnig verið unnið við frágang kantlýsingar í göngum, sem er nýlunda í gangagerð á Íslandi.
Næstu verkefni innan ganga eru svo m.a. frágangur yfirborðsmerkinga á veginum, frágangur gólfa í neyðarrýmum og uppsetning hurða þar, svo eitthvað sé nefnt.
Eins og áður hefur komið fram er stefnt á opnun ganganna laugardaginn 11. nóvember.
Myndir: Verkfræðistofan Hnit/Vignir Steinarsson
Mynd 1: Kantlýsing og blásarar.
Mynd 2: Vegagerð að tengihúsi í Fannardal
Mynd 3. Þjappað undir hellulögn á Eskifirði