
Flugvöllurinn orðinn fyrir höfninni?
Við móttöku Beitis um jólin var gert grín að því að Norðfjarðarhöfn væri orðin of lítil fyrir skip Síldarvinnslunnar. Huga þyrfti að því þegar farið verður í endurbætur á flugvellinum sem er þar við hliðina.
„Mér er sagt að þótt við höfum stækkað höfnina þá hafi hún í raun minnkað miðað við hve skipin hafa stækkað,“ sagði bæjarstjórinn Páll Björgvin Guðmundsson.
Miklar framkvæmdir hafa verið við höfnina undanfarin ár og til stendur að klæða flugvöllinn á komandi ári eftir að fjárveiting fékkst til þess á fjárlögum.
Gunnþór Ingvarsson, forstjóri Síldarvinnslunnar, nýtti tækifæri til að koma á framfæri athugasemd áður en framkvæmdir hefjast við flugvöllinn.
„Þið hafið kannski í huga að láta flugvöllinn sveigja aðeins inn í fjallið svo við getum stækkað höfnina. Hann er eiginlega farinn að flækjast fyrir.“
Rétt er þó að hafa í huga að bæjarstjórinn sagði að bið yrði á að höfnin yrði stækkuð enn frekar.