Að velja forseta

Ég ólst upp við að bera mikla virðingu fyrir embætti forseta Íslands og hef gert það æ síðan. Þann 1. júní nk. býðst okkur kjósendum að velja á milli flottra frambjóðenda í forsetakosningum. Það er lýðræðislegt gleðiefni og í takt við fyrrnefnda virðingu. Framboðin hafa hvert sína sérstöðu og sérkenni sem vonandi kemur til móts við mismunandi skoðanir, væntingar og vilja okkar kjósendanna.

Hvað þarf til?


Oft er talað um að forsetinn sé valdalaus og jafnvel að embættið sé óþarft. Ég er þessu ósammála, mögulega vegna þeirrar merkingar sem ég legg í orðið „vald“. Að vera í aðstöðu og kunna að nýta hana til að hreyfa við viðhorfum fólks og samfélaga er áhrifamikið og á sinn hátt ígildi valds.

Forseti Íslands er í slíkri stöðu og a.m.k. tveir fyrrverandi forsetar hafa nýtt sér það svo eftir var tekið bæði innan lands og utan. Vigdís Finnbogadóttir á sviði jafnréttismála og náttúruverndar og Ólafur Ragnar Grímsson hvað varðar nýtingu málskotsréttarins í þágu íbúalýðræðis.

Að þessu sögðu finnst mér mikilvægast að forsetinn sinni starfi sínu á þann hátt að hann sé í senn sameiningar- og hreyfiafl en ekki bara tákn til áminningar um slíka krafta. Hvað er það þá, af mannkostum, þekkingu og reynslu, sem æskilegt er að hafa í farteski sínu á leiðinni til Bessastaða? Eftirfarandi finnst mér meðal þess mikilvægasta;

- Meðvitund um og virðing fyrir náttúrunni sem uppsprettu allrar okkar velsældar.
- Mannvirðing og að vera málsvari fjölbreytileika og mannréttinda öllum til handa.
- Færni í mannlegum samskiptum og tengslamyndun.
- Staðgóð þekking á íslenskri stjórnsýslu og lýðræðislegum leikreglum okkar.

Minn forseti


Ég er svo heppinn að hafa í nokkur ár starfað með Katrínu Jakobsdóttur og veit að hún uppfyllir með glæsibrag allar fyrrnefndar væntingar. Hún á sterkar rætur í íslenskri menningu, tungu og bókmenntum og á sterkt tengslanet um víða veröld. Það net er reist á virðingu og trausti sem hún hefur áunnið sér með störfum sínum og framkomu.

Framkoma Katrínar einkennist af auðmýkt og virðingu fyrir fólki, málefnum og verkefnum. Katrín hefur þorað að leiða saman ólík sjónarmið, miðla og sætta til að ná fram því besta fyrir almannahag. Hún hefur einlægan áhuga á fólki og aðstæðum þess, er góður hlustandi og ræður yfir kryddum mannlegra samskipta eins og kímni, hlýju, samkennd, hláturmildi og alvöru og kann að skammta þau eins og hæfir hverju sinni.

Hún verður forseti sem auðveldlega samgleðst þjóðinni á gleðistundum og veitir henni styrk og hvatningu á erfiðum tímum. Hún verður líka forseti sem frá fyrsta degi vinnur að íslenskum hagsmunum erlendis. Sömuleiðis mun hún á alþjóðlegum vettvangi hér eftir sem hingað til tala um og fyrir friði. Á forsetastóli mun Katrín sýna í verki að ekkert er sterkara en mildin sjálf og ekkert mildara en raunverulegur styrkur.

Ég hvet öll til að nýta sinn dýrmæta kosningarétt. Það ætla ég að gera og kjósa Katrínu Jakobsdóttur.

Höfundur er læknir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar