Hið ómögulega val

Samkvæmt fjölmiðlum hafa á seinustu mánuðum að lágmarki 60 manneskjur setið einhversstaðar með sjálfum sér og hugsað „Er ég ekki bara það sem Ísland þarf mest á að halda?“. Fyrir 12 af þessum manneskjum þá var svarið afgerandi „Ó, jú - ég er sko algjörlega það sem Ísland þarf mest á að halda og þess vegna er best að ég verði bara forseti“.

Líklega fá flestir stöku sinnum skrýtna hugdettu í kollinn en þá er fyrsta varnarlag oftast vinir og vandamenn. Hugdettan er þá kannski orðuð kringum vinahóp eða fjölskyldu sem samstundis stoppar það af með því að benda á að um augljósa þvælu sé að ræða. Þeim 12 sem bjóða sig nú fram til forseta hefur augljóslega tekist að komast gegnum þetta fyrsta varnarlag og fengið vini og vandamenn með sér í lið. Ekki tókst þessum 12 manneskjum bara að sannfæra sína nánustu heldur líka að lágmarki eittþúsund og fimmhundruð aðrar manneskjur.

Stöldrum aðeins við eitt augnablik og áttum okkur á því hversu mikið hugrekki og/eða fífldirfsku þarf til þess að standa fyrir framan bláókunnugt fólk og reyna að sannfæra það um að sá, sem við það ræðir, sé óumdeilanlega svarið fyrir Íslendinga þegar þeir velja sér næst forseta. Persónulega þá gæti ég nú eiginlega ekki mælt með sjálfum mér í mjög margt, nema kannski að vera með skæting og hortugheit, þannig að ég á mjög erfitt með að setja mig í spor þeirra sem fara alla leið með þetta og eru nú í framboði til forseta Íslands.

Flestar kosningar, nema forsetakosningar, vekja áhuga minn. Komandi kosningar eru ekki að gera mikið til þess að breyta því. Þó finnst mér mjög áhugavert að manneskjan sem fór af stað með raunverulegri flugeldasýningu og svo myllumerkinu #FruForseti skuli svo ekki vera í framboði.

Allt þetta hugrakka fólk, sem býður sig fram, keppist samt við að reyna að vekja áhuga á sjálfum sér og sínum hugðarefnum. Það tekst misvel enda er fólk almennt misáhugavert. Stuðningsyfirlýsingar flæða um alla miðla og helstu kostir viðkomandi eru tíundaðir. Ég hef ekki ennþá fundið mér frambjóðanda sem fær mig til að nenna á kjörstað en er reyna að kryfja málið.

Arnar Þór finnst mér tala fullmikið um Jesú Krist og ég fæ á tilfinninguna að það sé eins komið fyrir Arnari&Jesú eins og Baldri&Felix: það er bara einn í framboði í einu og það virkar undarlegt að tefla sér fram sem einhverskonar tvennutilboði. Höllurnar tvær eru bjartar, hlýlegar og fullar af eldmóð fyrir bættum heim. Verst er að ég held að þeim skilaboðum munu þær þurfa að koma á framfæri í eigin persónu mjög oft og mjög víða um heim með tilheyrandi ferðakostnaði og dagpeningum.

Fyrir mörgum árum bjó ég í sömu götu og Ástþór og hann bauð mér aldrei góðan dag þegar ég mætti honum þannig að ég kýs hann ekki. Það er samt flott hjá honum að gefast ekki upp á að reyna að afsanna kenninguna um framboð og eftirspurn. Helgu Þórisdóttur þekki ég ekki til nema að mér skilst að hún sé forstjóri Persónuverndar. Hún er augljóslega alveg brjálæðislega fær í persónuvernd því það veit enginn hver hún er, sennilega er það þá þjóðinni til heilla að hún haldi bara áfram störfum sínum þar.

Ásdís Rán og Jón Gnarr styttu manni oft stundir sem ungum manni, á mjög ólíkan hátt þó, og það vakti með mér nostalgíu að sjá þau í framboði. Ég bjóst samt við meiri glamúr frá Ásdísi og meiri húmor frá Jóni. Tilfinningin er því svolítið þannig að þau séu orðin jafn miðaldra og leiðinleg og ég sjálfur - eitthvað sem ég óska engum og kýs þau því ekki.

Steinunn Ólína leikkona sagðist ætla að bjóða sig fram ef Katrín Jakobsdóttir myndi bjóða sig fram því hún væri þá að svíkja þjóðina. Áhugaverð nálgun og greinilega lítill kærleikur þar á milli. Mögulega ætlaði Steinunn að gera eins og Elísabet fyrsta Englandsdrottning þegar hún lét setja frænku sína Mary drottningu Skotlands í fangelsi í 19 ár svo hún kæmist ekki til valda. Algjörlega vanhugsað sökum þess að Katrín var nú þegar valdamesta kona landsins áður en hún bauð sig fram. Katrínu finnst sem sagt meira heillandi að veislustýra á Bessastöðum og vera bara svona almennur peppari fyrir land og þjóð frekar en að stjórna landinu. Hefði þeim tekist að koma erjunum upp í eitthvað Taylor Swift vs Nicki Minaj stig þá hefði ég hugsað málið en hvorug þeirra fær mitt atkvæði, held því þó opnu ef þær fara að gefa út diss lög um hvor aðra seinustu vikuna fyrir kosningar.

Seinustu tveir frambjóðendurnir eru þeir Eiríkur og Viktor en það er einmitt það sem ég held að verði þeirra hlutskipti, að verða seinustu tveir í kosningunum. Áhugaverðir gaurar og allt það en það litla sem ég hef heyrt frá þeim er mjög svo pólitískt og fær mig til þess að halda að þeir séu mögulega réttir menn en bara í röngum kosningum og að þeirra tími ætti að koma næst þegar kosið er til þings eða sveitarstjórna.

Ég er engu nær en óska þessu hugrakka fólk góðs gengis og finnst eins og þau eigi það skilið að maður dratthalist á kjörstað til að velja sér forseta. Á maður þá ekki bara dagsformið duga þann 1.júní til að að velja forseta?

Höfundur er áhugalaus um forsetaembættið en trúir á mikilvægi lýðræðis og kosninga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.