Múlaþing í stöðugum vexti vegna skemmtiferðaskipa en blikur á lofti vegna tollfrelsis

Sumarið hefur reynst afar farsælt fyrir hafnir Múlaþings og nærsamfélagið, þar sem mikill vöxtur og þróun hefur átt sér stað á Seyðisfirði, Borgarfirði eystri og Djúpavogi. Með stöðugri fjölgun í komum skemmtiferðaskipa halda hafnirnar áfram að þróast og bæta aðstöðu með sjálfbærni viðskiptanna og hagsmuni samfélagsins í fyrirrúmi. Töluvert hefur verið lagt í framkvæmdir og undirbúning fyrir næstu ár.

Miklum vexti fylgja þó alltaf einhverjar áskoranir eins og skortur á rútum og leiðsögumönnum, sérstaklega á Seyðisfirði. Það undirstrikar enn frekar eftirspurnina og þörfina á frekari aðlögun til að mæta vaxandi ferðaþjónustu á svæðinu. Einnig er unnið að úrlausn tollamála á Djúpavogi í samvinnu við tollayfirvöld. Stærsta áskorunin í dag er þó áform stjórnvalda um að afnema tollfrelsi skemmtiferðaskipanna sem eru á hringsiglingu um landið, sem oftast eru minni skip. Slíkar komur eru rúmlega 50% af komum til hafna Múlaþings. Skipafélögin hafa gefið það út að ef tollfrelsið verði afnumið geti komið til þess að þau þurfi að hætta hringsiglingum sem bitnar mest á höfnum landsbyggðarinnar, þar á meðal höfnum Múlaþings. Um 127 komur árið 2024 voru slíkar komur sem gætu dottið út eftir afnám tollfrelsisins.

Þak á farþegafjölda í höfnum: Árangursrík lausn


Einn af áhersluþáttum okkar hefur verið að setja þak á fjölda skipafarþega í höfnunum, sem hefur verið fagnað bæði af íbúum, skipafélögum, þjónustuaðilum og gestum. Ef um er að ræða komur yfir umræddu þaki færa skipin sig einfaldlega til. Fólk þarf því ekki að hafa áhyggjur af átroðningi. Þetta hefur í kjölfarið stuðlað að því að draga úr álagi á samfélagið og náttúru svæðisins og stuðlar vitaskuld líka að enn frekari dreifingu ferðamanna um landið.
Á Borgarfirði eystri er þakið 500 farþegar á dag, á Djúpavogi 2500 og á Seyðisfirði 3500. Takmarkanirnar hafa reynst vel og tryggt að fjölda ferðamanna frá skipum hefur verið haldið innan marka. Engin mörk eru annars á ferðamönnum sem koma með öðrum hætti til svæðisins.

Þá hafa leiðangursskip í auknum mæli valið Borgarfjörð eystri sem viðkomustað, en í ár var þar tekið á móti 20 skipum. Þetta eru góðar fréttir fyrir svæðið, sem reiðir sig nú æ meira á tekjur frá skipunum. Búsvæði lundans í Hafnarhólma hefur haft mikið aðdráttarafl og gestir hafa notið góðrar þjónustu á svæðinu. Þarna er að finna eitt besta aðgengi að lunda sem fyrirfinnst á Íslandi, en unnið er að því að bæta aðgengi fyrir gesti með framkvæmdum á hafnarsvæðinu og uppsetningu á gjaldhliði. Tekjur sem af gjaldtökunni hljótast verða nýttar til verndar á lundanum, rannsókna á lífríki og viðhaldi göngustíga í Hólmanum. Þá verður gjaldtökunni stillt í hóf. Á Borgarfirði eystri hafa samtök leiðangursskipa, AECO, einnig unnið sáttmála í samstarfi við heimafólk um umgengni á staðnum. Það er til fyrirmyndar og miðar að því að skapa almenna sátt öllum til heilla, heimamönnum sem og gestum skipanna.

Uppbygging, bætt aðstaða og stækkun hafna á Djúpavogi og Seyðisfirði


Á Djúpavogi hefur skemmtiferðaskipum fjölgað og þjónustan á staðnum aukist, meðal annars með nýju almenningssalerni og opnun á brugg- og veitingahúsi nálægt höfninni. Einnig er í hönnun nýr viðlegukantur í Gleðivík sem mun bæta móttöku skemmtiferðaskipa, auk þess að styrkja aðstöðu fiskeldis. Lítið þjónustuhús sem er ætlað sérstaklega fyrir móttöku skemmtiferðaskipa verður sett upp í haust eða næsta vor, en nú er verið að setja upp skilti og göngustíg sem liggur frá höfninni að Eggjunum í Gleðivík, listaverki Sigurðar Guðmundssonar. Djúpivogur er sú höfn á Íslandi sem er næst Jökulsárlóni, en mikil náttúrufegurð og sögulegar minjar hafa mikið aðdráttarafl og hafa laðað að sér fjölda ferðamanna.

Um uppbyggingu hafnarinnar á Seyðisfirði er helst að nefna stækkun Strandarbakka úr 170 metrum í 370 metra, sem mun gera stærri skipum kleift að leggjast upp að bryggju eða fleiri minni skipum í einu. Ný Angróbryggja var einnig tekin í notkun í sumar, en hún var smíðuð úr timbri frá sjálfbærum skógi og hefur reynst vel fyrir minni skipin. Með bæjarbryggjunni eru þær samtals 116 metrar á lengd og 9 metrar á dýpt sem hentar vel fyrir minni skipin og skútur. Aðrar framkvæmdir eru einnig á Seyðisfirði, svo sem bygging snjóvarnargarða undir Bjólfi, en þeir munu skapa nýjar gönguleiðir og aðgengi að merkum fornleifauppgreftri. Á næsta ári er áætlað að leggja lokahönd á útsýnispallinn Baug Bjólfs, sem er í 640 metra hæð yfir sjávarmáli.

Skemmtiferðaskipin eru að öllum líkindum stærsti liðurinn í að þessar fjárfestingar skili góðum árangri. Einhverjar áhyggjur hafa verið uppi um mengun vegna skipanna, vel er verið að fylgjast með því og safna gögnum með inngildingu Seyðisfjarðarhafnar í EPI kerfinu. Stefnt er að því að tengja Norrænu við rafmagn á næsta ári, sem er mikilvægt og umhverfisvænt framfaraskref.

Afnám tollfrelsis á hringsiglingar hættulegt uppbyggingu


Þróun hafna Múlaþings heldur því áfram með það að markmiði að skapa sjálfbæra framtíð fyrir ferðaþjónustu á Austurlandi. Eftir að leiðangursskip juku komur sínar til hafna svæðisins hefur samfélagið vaxið með og atvinnu- og tekjusköpun aukist, enda eru farþegar þessara skipa vel stæðir og kaupa mikla þjónustu og afþreyingu. Með öflugum tengingum við alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum eru möguleikar á frekari vexti talsverðir, þar sem svæðið býður upp á einstakar upplifanir og óviðjafnanlega náttúrufegurð sem hentar vel farþegaskiptum á milli flugs og skips. Múlaþing hefur þegar skilað miklum árangri í verndun náttúru, bætingu aðstöðu og að mæta þörfum gesta. Jafnframt hefur sveitarfélagið náð að tryggja jafnvægi á milli aukinnar ferðaþjónustu og verndunar á einstökum svæðum.

Um 200 komur skemmtiferðaskipa og 40 komur Norrænu eru bókaðar á höfnum Múlaþings samanlagt árið 2025, svo að vel þarf að halda á spilunum við undirbúning næstu ára. Með afnámi tollfrelsis sem taka á gildi 1. janúar næstkomandi verður 60%, af nú þegar bókuðum komum til hafna Múlaþings, stefnt í hættu. Útgerðir minni skipanna eru nú þegar farnar að leita á önnur mið vegna þessa ef marka má samtöl við útgerðirnar nýlega. Einhver hafa nú þegar afbókað komu sína á næsta ári. Eitt alvarlegasta dæmið um hvernig bókanir eru í hættu er Celebrity Cruises árin 2026 - 2028, en þau hafa bókað um 80 komur til Seyðisfjarðar og Djúpavogs, þar yrði tekjutapið um 320 milljónir eða rúmar 100 milljónir á ári frá þessu eina skipafélagi sem ætlar að gera út hringsiglingar þessi ár. Hver koma skilar 4 milljónum í hafnarkassann samkvæmt verðskrá ársins í ár.

Vegna væntanlegs afnáms tollfrelsis eru hringsiglingar leiðangursskipa nú í hættu, sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar og umfangsmikið tekjutap fyrir minni hafnir landsins og sveitarfélögin sem reiða sig á komur þeirra. Skemmtiferðaskipageirinn hefur reynst bæði góður sveiflujafnari fyrir efnahagslífið á Íslandi í heild og nauðsynlegur fyrir atvinnusköpun og viðhald innviða hjá minni sveitarfélögum. Leitt væri að sjá þeirri þróun stefnt í hættu. Þá má nefna að hafnirnar, sem áður reiddu sig á fjármagn frá ríkinu, hafa undanfarið geta staðið undir öllum rekstri vegna komu skipanna, með jafnvel góðri afkomu. Til að halda þessari jákvæðu þróun áfram er ljóst að taka þarf betur utan um geirann til að tryggja áframhaldandi vöxt og uppbyggingu.

Höfundur er hafnarstjóri og sveitarstjóri Múlaþings

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar