Samgönguráðherra - ekki gleyma slysagildrum Suðurfjarðavegar

Margt mæðir á nýjum innviðaráðherra Svandísi Svavarsdóttur, verkefni mörg og brýn. En stjórnmál lúta að forgangsröðun og því viljum við í Fjarðabyggð vekja athygli á því sem á okkur mæðir.

Mikilvægt er að flýta framkvæmdum við Suðurfjarðaveg en blindhæðir, hlykkir og einbreiðar brýr sem einkenna veginn eru vegfarendum mjög varasamar. Auk þess er Suðurfjarðarvegur sem hluti af þjóðvegi eitt óásættanleg hindrun fyrir íbúa og atvinnulíf sveitarfélagsins.

Daginn fyrir embættistöku ráðherrans samþykkti bæjarráð Fjarðabyggðar sérstaka bókun vegna Suðurfjarðarvegar. Þar er þess krafist að undirbúningi og framkvæmdum við Suðurfjarðaveg verði flýtt. Ekki hafa átt sér stað neinar endurbætur frá því lagt var bundið slitlag á gamlan ófullnægjandi veg fyrir nálægt 35 árum. Mál er að linni.

Stórhættuleg slysagildra


Ekki þarf að fjölyrða um hin mörgu alvarlegu slys sem orðið hafa á Suðurfjarðavegi undanfarin ár. Margir hlutar hans eru hættulegir samkvæmt alþjóðlegum umferðarstöðlum og fjölmörgum blindhæðum, hlykkjum og einbreiðum brúm sem ekki standast þungatakmarkanir. Ört vaxandi þungi flutninga, ferðamanna sem og annarra ökumanna kallar á tafarlausar úrbætur.

Við endurgerð Suðurfjarðavegar leggja íbúar Fjarðabyggðar áherslu á að framkvæmdum í Reyðarfjarðarbotni ljúki ekki seinna en í árslok 2025. Brúin yfir Sléttuá er umferðarþyngsta einbreiða brú á Austurlandi og er jafnframt ein elsta brú hringvegarins. Brúin, sem ber ekki þungavinnuvélar hefur ollið umtalsverðum vandræðum meðal annars varðandi uppbyggingu atvinnusvæða í Fjarðabyggð. Flytja þarf þungavinnuvélar yfir Sléttuá á vaði með tilheyrandi kostnaði, töfum og umhverfisraski.

Þróttmeira atvinnulíf þarf vegi


Nýr Suðurfjarðavegur er mikilvægur varðandi lífskjör hér eystra, enda tenging atvinnulífs Suðurfjarða við eina stærstu vöruflutningahöfn landsins á Mjóeyrarhöfn.

Vart þarf að minna á verðmætasköpun Fjarðabyggðar fyrir íslenskt hagkerfi. Útflutningsatvinnuvegir hennar afla verulegra gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið. Þróttmikil uppbygging kallar á stóraukna umferð á svæðinu, m.a. vegna skóla-, þjónustu- og atvinnusóknar varðandi lífsgæði og þjónustuaðgengi. Flutningar afurða og vara til og frá höfnum svæðisins og milli fyrirtækja vegna álframleiðslu, sjávarútvegs og laxeldis byggja á góðum samgöngum. Jafnframt byggir nýsköpun ferðaþjónustu á öruggum og greiðum samgöngum.

Fjarðabyggð krefst þess að undirbúningi og framkvæmdum við Suðurfjarðaveg verði flýtt. Allar tafir úrbóta vegasamgangna eru óásættanleg staða fyrir íbúa og atvinnulíf Fjarðabyggðar. Setja verður uppbyggingu Suðurfjarðavegar í forgang. Við í Fjarðabyggð treystum á ráðherra í þessum efnum.

Ragnar Sigurðsson er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Þuríður Lillý Sigurðardóttir er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar