20 milljónir austur í byggðaverkefni
Tvö austfirsk verkefni fá samanlagt tuttugu milljónir króna frá samgöngu- og sveitastjórnarráðherra á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar.Formlega séð er styrkjunum úthlutað samkvæmt samningum við Samband sveitarfélaga að Austurlandi en stjórn þess fór yfir einstakar umsóknir og sendi áfram í sínu nafni.
Verkefni sem kallast Menningarbærinn Seyðisfjörður fær 15 milljónir króna. Styrkurinn skiptist í tvo jafna hluta sem fara annars vegar til Skaftfells, hins vegar LungA. Styrkurinn nýtist bæði til rekstrar og endurbóta.
Þá fær Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði fimm milljónir sem tilraunaverkefni á sviði menningar, menntunar og atvinnusköpunar. Styrkurinn nýtist meðal annars í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði hennar.
Alls hlutu níu verkefni á landsvísu samanlagt 120 milljónir króna. Umsóknir voru alls 26 og fjárhæðin 441 milljón.
„Það er okkur mikil ánægja að unnt sé styrkja mörg áhugaverð og fjölbreytt verkefni um land allt á grundvelli nýrrar byggðaáætlunar.
Ákveðið var að veita styrki að fengnum umsóknum en þetta er í fyrsta sinn sem framlög úr byggðaáætlun eru sett í samkeppnispott með þessum hætti. Fleiri samkeppnispottar af þessu tagi verða auglýstir jafnt og þétt,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í tilkynningu.
Þar segir ennfremur að mark með framlögum til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða sé að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna.
Áhersla sé lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt til grundvallar við mat á umsóknum.