Norðfirðingar slegnir eftir skrílslæti fulltrúa á þingi SUS

Íbúum í Neskaupstað er brugðið eftir útganginn í bænum eftir hluta fulltrúa á þingi Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS) sem gisti þar. Íbúar segjast sjaldan hafa séð annað eins.

Austurfrétt hefur í vikunni talað við íbúa og fylgst með skrifum þeirra þar sem þeir hafa kvartað undan útganginum sem þeir lýsa sem ömurlegum.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst var skitið í ruslafötur á hótelinu, tæmt úr slökkvitækjum á göngum og hnífapörum fleygt út í sjó. Umgengni utan hótelsins var ekki betri, rusl á tvist og bast og tómatsósu sprautað á hús.

Íbúar lýsa umgengninni sem skelfilegri og margfalt verri en eftir hátíðina Eistnaflug þar sem gestir séu þó margfalt fleiri og dvelji mun lengur. Hávaðinn hafi meira að segja verið meiri en á hátiðinni og dósir og kassar utan bjór út um allt á sunnudagsmorguninn.

Íbúarnir bera við að þeim hafði brugðið við að þarna væru mögulegir leiðtogar þjóðarinnar á ferð. Þeir hafi ekki borið nokkra virðingu fyrir umhverfi sínu.

Hópurinn gisti á Hótel Hildibrand í miðjum bænum. Hákon Guðröðarson, hótelstjóri, sagðist í samtali við Austurfrétt ekki getað tjáð sig um málið þar sem hann vildi ekki brjóta trúnað við gesti sína.

Í yfirlýsingu SUS við frétt Nútímans, sem fyrstur sagði frá skrílslátunum, segir að engin skemmtanahöld hafi verið á vegum stjórnarinnar í Neskaupstað. Þau hafi verið á Eskifirði, þar sem þingið var haldið. Hegðun og umgengni þar hafi ekki verið með sama hætti og reynt eftir fremsta megni að tryggja að allt færi vel fram í samvinnu við íbúa.

Íbúar á Eskifirði hafa látið heyra í sér og kvartað undan umgengni við grunnskólann þar sem fjölmennar formannskosningar fóru fram. Áfengi var haft við hönd innan skólans sem og á skólalóðinni. Þar var einnig reykt og migið upp við veggi. Við neyðarútgang skólans hafði hópur þingfulltrúa komið með kraftmikinn hátalara og spilaði háværa tónlist.

Í dagbók lögreglunnar á Austurlandi segir að samkoman hafi farið vel fram. Þó hafi komið til einhverra afskipta þar sem nokkra þekkingu hafi vantað upp á hversu glatt mætti skemmta sér að næturlagi eystra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.