20 tíma rafmagnsleysi í Fellum

Sex bæir í Fellum á Fljótsdalshéraði eru enn án rafmagns eftir raflína í sveitinni skemmdist í miklu ísingarveðri í gær og fyrradag. Viðgerðarflokkur var að til klukkan tvö í nótt en samt tókst ekki að koma rafmagni á bæina.

Rafmagnslaust var á Krossi, Setbergi, Birnufelli, Meðalnesi, Rauðalæk og Holti í nótt.

Línan til Hreiðarsstaða bilaði fyrst í gærmorgun en viðgerðarmönnum tókst að laga hana. Um klukkan þrjú kom í ljós bilun í línunni að Krossi. Á meðan gert var við hana bilaði að auki fyrir neðan Refsmýri.

Mikil ísing var á raflínunni í gær sem olli því að staurar brotnuðu og línurnar slitnuðu. Viðgerðarmenn voru að til klukkan tvö í nótt en þá þótti fullreynt og þeir kallaðir heim. Aðstæður í gær voru mjög erfiðar, hvassviðri og stöðugt bætti á af blautum, þungum snjó.

Viðgerðarflokkurinn fór aftur af stað um klukkan átta í morgun. Allt kapp er nú lagt á að koma rafmagni á þá bæi sem lengst hafa verið án rafmagns með díselrafstöðvum. Á Krossi fara að verða liðnir 20 tímar án rafmagns.

Fleiri bæir eru nú án rafmagns á meðan viðgerð stendur yfir. Samkvæmt upplýsingum frá svæðisvakt RARIK á Austurlandi er óljóst hve langan tíman viðgerðin tekur en búast má við frekari truflunum í Fellum á meðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.