Notkun endurskinsmerkja ábótavant: Þetta er svipað vítt og breitt um landið

Enduskin taflaÍ könnun á vegum Vís sem var gerð í síðustu viku kemur í ljós að sex af hverjum tíu börnum og fullorðnum, eða 58% eru ekki með endurskinsmerki. Þótt hlutfallið sé allt of hátt er það töluvert betra en á sama tíma í fyrra þegar þrír af hverjum fjórum, 74%, voru án endurskinsmerkja í könnun sem starfsmenn VÍS gerðu í gangbrautarvörslu.

Líkt og þá eru það hinir eldri sem mun síður láta ljós sitt skína en yngri kynslóðin. Endurskin barnanna var oftast á töskum og utanyfirflíkum og þá fyrir tilstilli framleiðanda.

Þau 12% barna, en enginn fullorðinn var í þessum hóp, sem voru með endurskin á fleiri en einum stað voru yfirleitt með það bæði á utanyfirfatnaði og skólatösku en nokkrir voru jafnframt með hangandi endurskinsmerki. Af þessu má sjá svo ekki verður um villst hve mikilvægt er að velja utanyfirfatnað, skó og töskur með áföstu endurskini.

Ef endurskinið er orðið máð og rispað getur virkni þess minnkað. Gera má ráð fyrir því eftir 10 til 20 þvotta. Þá þarf að endurnýja. Best er að hafa saumuð og límd endurskin neðst á flíkinni, bæði að framan og aftan. Hangandi endurskin á líka að vera neðst en heppilegra er að hafa það á hliðunum.

Könnunin var gerð í Reykjavík en má ætla niðurstöður yrðu þær sömu hér fyrir Austan? „Við höfum ekki gert þessa könnun markvisst á Austurlandi, en það virðist sem að þetta sé ósköp svipað vítt og breytt um landið. Við höfum m.a tvö síðustu ár gert kannanir víða í gangbrautavörslu og gerðum við meira að segja eins slíka á Egilsstöðum í síðasta mánuði. Þær eru að koma svipað út svo allstaðar. Og þegar verið er að skoða öryggi barna í bílum er niðurstaðan sú sama hringinn í kringum landið.

Þar af leiðandi á ég ekki von á að notkun endurskinsmerkja sé öðruvísi á Austurlandi en á höfuðborgarsvæðinu. Þessar niðurstöður eru góð áminning fyrir okkur öll hvar sem við erum á landinu. Nú hvet ég alla til að fara yfir þessi mál fyrir veturinn því með endurskini sést viðkomandi allt að fimm sinnum fyrr en ella í myrkri. Sá tími getur skipt sköpum fyrir ökumann að bregðast við“,“ segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir, Sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS í samtali við Austurfrétt.

Endurskin


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar