Vilja Fjarðarheiðargöng strax á eftir Norðfjarðargöngum eða fyrr

seydisfjordurBæjarstjórn Seyðisfjarðar skorar á þingmenn að tryggja að Fjarðarheiðargöng fari inn á samgönguáætlun strax að loknum Norðfjarðargöngum eða fyrr.

Þetta kemur fram í ályktun frá síðasta fundi bæjarstjórnar. Þar er þakkað fyrir þá ákvörðun að ráðast í kjarnaborun til að rannsaka jarðlög í heiðinni í sumar en jafnframt skorað á þingmenn að fylgja vinnunni frekar eftir.

„Til þess að svo megi verða þarf að tryggja næga fjármuni þannig að áætlunin geti gengið eftir. Einnig leggur bæjarstjórn áherslu á að unnið verði að öðrum undirbúningi verkefnisins, svo framkvæmdir við Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði geti komist á fullan skrið í beinu framhaldi af Norðfjarðargöngum eða fyrr verði þess nokkur kostur."

Minnt er á að vegurinn um Fjarðarheiði er á 10 km kafla í meira en 600 metra hæð og eina tenging íbúa staðarins við þjóðvegakerfið sem sæki bæði vinnu og þjónustu yfir heiðina.

„ Þar til Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði verða að veruleika, verða samgöngur til og frá Seyðisfirði ótryggar og óöruggar að vetrarlagi."

Þá er rætt um fjölda ferðamanna á heiðinni og álag á björgunarsveitir vegna vaxandi fjölda ökumanna sem lendi í vandræðum.

„Hlutur björgunarsveita hefur aukist verulega við að aðstoða fólk að komast leiðar sinnar á Fjarðarheiði og starf þeirra er orðinn þáttur í vegþjónustu, sem engan veginn er ásættanlegt að leggja á sjálfboðaliðasamtök.

Komið hafa upp tímabil að vetrum þar sem heiðin hefur verið lokuð í fjóra sólarhringa samfellt. Það eru aðstæður sem eru algjörlega óásættanlegar einkum hvað varðar öryggi íbúanna.

Þá minnir bæjarstjórnin á frumkvæði Seyðfirðinga um vilja til að ræða gjaldtöku sem þátt í fjármögnun verkefnisins."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar