Nýrri stjórn falið að skoða stöðu GÁF

huang nubo 600pxNýrri stjórn GÁF ehf. hefur verið falið að fara yfir stöðu félagsins og gera tillögur til úrbóta. Nær engar tekjur hafa komið inn í félagið síðan það var stofnað.

„Stjórn var falið að fara ofan í saumana á þessu máli og má vænta þess að hún skili af sér tillögum til sveitarfélaganna fljótlega. Þar til þær tillögur hafa litið dagsins ljós er lítið hægt að tjá sig um málið," segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs sem situr í stjórninni. Aðalfundur þess var haldinn í gær.

Sjö sveitarfélög á Norður- og Austurlandi, þar á meðal Fljótsdalshérað og Vopnafjarðarhreppur sem eiga 16% hvort, stofnuðu GÁF ehf. árið 2012. Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, tók undir orð Björns en Austurfrétt innti þá eftir sýn sveitarfélaganna á framtíð verkefnisins og hvernig tekist yrði á við skuldirnar.

Tilgangur GÁF var að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum og leigja aftur, að líkindum til félags Hugans Nubo. Þau áform hafa ekki gengið eftir og nema skuldir félagsins níu milljónum króna. Fráfarandi stjórn varaði við að sveitarfélögin þyrftu að leggja fram aukið fé ef áformin gengju ekki eftir. Eins og Austurfrétt greindi frá í gær varaði hún einnig við að áhugi Nubos dvínaði eftir því sem á liði.

Kínverski fjárfestirinn hugðist byggja upp ferðamannaþjónustu á Grímsstöðum. Hann keypti í sumar land í nágrenni Tromsö í norður-Noregi þar sem hann hyggst byggja upp á slíkan hátt.

Kostnaður félagsins er fyrst og fremst vegna vinnu atvinnuþróunarfélaga og ráðgjafa árið 2012.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar