Fjölmenni við opnun nýs hjúkrunarheimilis: Flutt inn á fimmtudag
Fjölmenni sótti opnunarhátíð nýs hjúkrunarheimilis, Hulduhlíðar, á Eskifirði í dag. Húsnæðið er talið marka ný viðmið í aðstöðu fyrir aldraða.„Þetta er fyrsta húsið sem ríkið byggir frá grunni eftir nýjum viðmiðum velferðarráðuneytisins. Það er rýmra en eldri hús og meira eins og heimili," sagði Halldóra Vífilsdóttir, aðstoðarforstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins við athöfnina í dag.
„Þetta hús setur ný viðmið í aðstöðu fyrir aldraða. Byggingin er ekki bara glæsileg heldur umhverfið og garðurinn," sagði Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, sem talaði í fjarveri Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, sem forfallaðist í morgun.
Jens Garðar afhenti síðan Jóni Birni Hákonarsyni, forseta bæjarstjórnar, lykil að húsinu og hann lét hann ganga áfram til Árna Helgasonar, framkvæmdastjóra. „Það verður gaman að starfa hér," sagði Árni og þakkaði þeim sem stutt hafa við byggingu heimilisins.
Hin nýja Hulduhlíð stendur andspænis knattspyrnuvellinum við innkeyrsluna í Eskifjörð. Bygging hússins hófst árið 2011 og kostar um milljarð. Ríkið greiðir 85% byggingarkostnaðar en Fjarðabyggð 15%.
Hugmyndafræðin sem húsið er hannað út frá byggir á því að búa heimilismönnum vistlegt heimili þar sem mannréttindi mannúð og virðing séu í heiðri höfð. Þeim sé skapað öryggi með viðeigandi félagslegum og heilsufarslegum stuðningi og veitt öll nauðsynleg hjúkrun, umönnun og læknishjálp. Þá sé sjálfsmynd þeirra og sjálfræði styrkt.
Húsið samanstendur af þremur húsum og sameiginlegu miðrýni. Samkeppni var haldin um nöfn húsanna sem heita: Holt, Hús og Sel.
Heimilismenn flytja síðan inn í húsið á fimmtudag en nokkrir eru þegar byrjaðir að koma sér fyrir. Sú breyting verður að hver verður með sér herbergi en áður voru menn tveir saman.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um nýtt hlutverk gömlu Hulduhlíðar.