„Rugl að gera" á dekkjaverkstæðum: Gætum verið tvöfalt fleiri að vinna
Biðraðir höfðu myndast á austfirskum dekkjaverkstæðum þegar starfsmenn komu þar til vinnu í morgun. Atgangur hefur verið þar í dag enda snjó kyngt niður í fjórðungnum.„Það var komið fullt af bílum og biðröð hér fyrir utan þegar við opnuðum upp úr klukkan hálf átta í morgun. Fólk vissi af veðurspánni," segir Kristdór Þór Gunnarsson, rekstrarstjóri Dekkjahallarinnar á Egilsstöðum.
„Sumarið var gott og haustið líka þannig menn virðast hafa haldið í vonina um að það yrði sumar í allan vetur."
Á föstudag var byrjað að vara við veðri vikunnar og þær viðvaranir endurómuðu um helgina. „Það er búin að vera lítil hálka á vegum en svo kemur þetta allt í einu núna. Snjórinn kemur hart á okkur á fyrsta degi.
Það er mikil ófærð innanbæjar. Þeir sem eru á slæmum dekkjum komast ekkert um."
Mesta úrkoma á landinu á þessum sólarhring hefur mælst á Austfjörðum. Stórar snjóflygsur falla úr loftinu og snjóþekja er á flestum vegum. Öxi og Hellisheiði eru ófærar og þæfingur á Breiðdalsheiði.
Austfirðingar fara þó ekki verst út úr veðrinu en Kristdór segir sömu stöðu hafa verið í morgun á starfsstöðvum Dekkjahallarinnar um allt land.
Á Egilsstöðum eru tíu starfsmenn að störfum í dag en Kristdór segir „nóg af bílum fyrir 20. Við erum með 4-5 bíla inni í einu og þeir ganga hratt."