Skógarmítill fannst á stofugólfi á Egilsstöðum: Þetta er ekki að hellast yfir okkur
Lifandi skógarmítill fannst nýverið í íbúðarhúsnæði á Egilsstöðum. Sérfræðingur segir ekki nýtt að þeir finnist á Austfjörðum þótt ekki sé víst að þeir séu landlægir hér.„Þetta er ógeðslegt kvikindi, pínulítil kúla og um sentímetri á stærð. Hún lá á stofugólfinu," segir Reynir Hrafn Stefánsson sem fékk mítilinn inn til sín.
Líklegast er að mítillinn hafi borist inn í húsið með heimiliskettinum. Skarphéðinn Þórisson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir það vel þekkt og bendir á að hans eigin köttur hafi „fært honum tvo."
Skógarmítill er blóðsuga á spendýrum sem heldur sig í gróðri, einkum skógarbotnum, að því er fram kemur á pödduvef Náttúrustofu Íslands. Þegar hann vantar blóð skríður hann upp í gróðurinn og krækir sig við blóðgjafa sem á leið um.
Skógarmítlarnir hafa komið til landsins með fuglum en sá fyrsti fannst á þúfutittlingi í Surtsey árið 1967. Fyrsti skógarmítillinn á Austfjörðum fannst á sauðkind sem gengið hafði í Mjóafirði. Dýralæknar á Austfjörðum eru því ekki ókunnugir verunni. „Þetta er ekki að hellast yfir okkur," segir Skarphe´ðinn.
Tvívegis er vitað um að skógarmítill hafi fest sig á mannfólk á svæðinu, fyrra atvikið varð í Selskógi við Egilsstaði árið 1996 en hitt er skráð á Norðfirði árið 2009. Flest tilvikin eru á köttum og hundum en árið 2009 fannst skógarmítill á hreindýri.
Þegar mítlarnir hafa sogið nægt blóð falla þeir af bráð sinni, saddir og sælir, líkt og sá á Egilsstöðum hefur að líkindum gert. Ekki er hætta á að þeir finni sér annað fórnarlamb á meðan þeir melta.
Þekkt er að mítlarnir geta borið með sér vírusa og óværu sem valda sýkingum. „Þeir hafa aldrei borið sjúkdóma í Íslending á Íslandi," minnir Skarphéðinn á en misjafnt virðist eftir landssvæðum hvers konar sýkingar þeir bera með sér.
Á vef Landlæknisembættisins er farið yfir hugsanlega hættu og hvernig eigi að fjarlægja mítlana. Ekki má slíta þá af því hætta er að hluti þeirra verði eftir sem skapar hættu á sýkingu. Almennt er ekki talin hætta á sýkingu náist mítillinn af innan sólarhrings. Einkenni sýkingarinnar er tvöfaldur rauður hringur umhverfis svæðið.
Eftir því sem loftslag jarðarinnar hlýnar færist skógarmítillinn norðar á bóginn og ofar í landið. Tilfellum hérlendis hefur því fjölgað töluvert síðustu ár. Skarphéðinn segir frekari rannsóknir þurfa til að sannreyna hvort skógarmítillinn lifi af veturinn á Austfjörðum og sé landlægur á svæðinu eða berist hingað með farfuglum.
Mítlinum á Egilsstöðum var komið til Náttúrustofunnar sem svæfði hann og sendi hann suður til Reykjavíkur til frekari greiningar. Mítillinn er áttfætla og skyldur köngulóm, líkt og lundalúsin.
Skógarmítlar hafa fundist á Íslandi á tímabilinu frá júní og fram í nóvember. Ólíklegt er því að fleiri finnist á þessu ári en þeir sem verða varir við skógarmítlar er bent á að snúa sér til Náttúrustofunnar.