Jón Björn: Rekstur Fjarðabyggðar er þungur

jon bjorn hakonarson stfj mai14Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar viðurkennir að nefndum sveitarfélagsins sé þröngur stakkur sniðinn við gerð fjárhagsáætlunar. Sveiflur í helstu atvinnustoðum sveitarfélagsins geta reynst því dýrar og vaxtakostnaður er mikill baggi á því.

„Við höfum verið bjartsýnni á að menn sæju meir og meir til sólar en reksturinn er þungur," sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknarmanna, á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Nefndir sveitarfélagsins hafa undanfarið undirbúið gerð fjárhagsáætlunar en fyrsta umræða um hana verður í bæjarstjórn eftir viku. Jón Björn segir nefndirnar í erfiðri stöðu, þær vilji standa vörð um sitt faglega starf en á sama tíma þurfi þær að leita leiða til að hagræða því ramminn þeirra sé þröngur.

Áætlanagerðin byggir á áætlunum um tekjur næsta árs. Forsendubrestir þar geta reynst verulega dýrir.

„Þótt við séum með eindæmum tekjusterkt sveitarfélag þá erum við berskjölduð ef tekjufall verður í sjávarútvegi eða iðnaði. Við þurfum ekki að lenda í miklu.

Við fundum það þegar loðnuvertíðin brást í vetur og skyldi Fjarðabyggð eftir berskjaldaða. Það jafnaðist út með öðrum afurðum en sveitarfélag sem treystir svona mikið á útflutningsgreinar verður að hafa breiðan tekjugrunn."

Jón Björn lýsti enn fremur áhyggjum sínum af vaxtakostnaði sveitarfélagsins sem hann sagði taka „gríðarlega frá rekstri." Fyrir hrun hafi menn verið með áætlanir um greiðslur af lánum en þær farið út um gluggann þegar lánin margfölduðust í kringum hrunið.

Þá hafi kjör starfsmanna staðið í stað en nú sé það að breytast, fyrst með kjarasamningum kennara frá í vor og fleiri samningum sem séu að losna á næstunni.

Jón Björn sagði að þegar í næstu samningalotu yrði komið myndu menn „finna hvað reksturinn er þungur og hversu erfitt sveitarfélagið á með að halda í við hann."

Hann sagði menn þurfa að „vinna skynsamlega" með reksturinn og tækifæri væri mögulega til að skoða hvernig þjónustu sveitarfélagsins eigi að vera háttað til framtíðar, í stað þess að hugsa til skemmri tíma þegar menn hafi reynt að halda sjó síðustu ár.

„Það verður að velta fyrir sér hvernig við viljum að sveitarfélagið reki sig. Að það standi sig í sínum lögbundnu hlutverkum og svo verði rætt hvernig annað verði leyst eða hvers konar þjónustu við veitum."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar