Ekki sandað fyrir fjárbílinn: Engir sénsar teknir með fulllestaða bílana

fjardarheidi 30012013 0006 webStarfsmenn Norðlenska eru óhressir með þjónustu Vegagerðarinnar í kringum flutninga fyrirtækisins á fé leið til slátrunar. Þeir eru ekki sammála mati þjónustuaðilans á aðstæðum.

„Við erum með fulla bíla af lifandi skepnum og förum ekki upp snarbrattar brekkur upp á von á óvon. Flutningar Norðlenska hafa gengið slysalaust til þessa því menn taka enga sénsa," segir Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli sem sér um niðurröðun sláturfés á austursvæði.

Í samtali við Austurfrétt í morgun nefndi Aðalsteinn nokkur dæmi um það sem hann taldi slælega þjónustu Vegagerðarinnar en gremjan nú beinist einkum af ferðum til Borgarfjarðar eystri.

Til stóð að bíll færi þangað niður eftir í gær en hann hætti við vegna hálku á Vatnsskarði. „Vegagerðin telur að það hafi ekkert verið að en við erum ekki sammála því," segir Jakob Sigurðsson, oddviti hreppsnefndar á Borgarfirði.

Hann sagðist fengið þau svör hjá Vegagerðinni að þjónustan væri sérstaklega skert í dag þar sem starfsmenn væru á snjómokstursnámskeiði í dag.

Senda átti tvo bíla á Borgarfjörð í dag en til að þeir komist yfir þarf að setja þá á keðjur. Það tekur aukatíma auk þess sem bílarnir fara hægar. „Mér finnst ekki hugsað um velferð dýranna því menn vilja yfirleitt hafa þau sem styst á bílnum," sagði Aðalsteinn.

„Vegagerðin er ekki að þjónusta okkur. Það er ekkert gert til að liðka fyrir flutningunum. Færðin er í lagi fyrir einn mann í fólksbíl en við erum að tala um fulllestaða bíla með lifandi dýrum."

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar hét svari við fyrirspurn Austurfréttar um málið upp úr hádegis en það hafði ekki borist nú klukkan þrjú. Í samtalinu benti hann þó á áætlun Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu.

Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að vegurinn yfir Vatnsskarð sé opinn milli 9:30 og 17:00 virka daga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar