Umhverfisstofnun: Ótækt að mælarnir detti út

blaa modan 05092014 0010 webEngar upplýsingar var að fá um loftgæði á Héraði eða Reyðarfirði um helgina. Mælar sem dreifðir eru um svæðið eru vaktaðir og látið vita þegar þeir fara yfir viðmiðunarmörk.

„Við erum mjög undrandi. Stundum hefur einn og einn mælir dottið út en það er sjaldgæft að margir detti út í einu," segir Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar.

Þrír mælar eru á Reyðarfirði og einn á Egilsstöðum sem beintengdir eru við vefinn Loftgæði.is. Þeir virðast hafa dottið úr sambandi seinni part föstudags og gögn komu ekki inn á vefinn frá þeim fyrr en undir hádegi.

Gögn frá mælunum eru til fyrir síðasta sólarhring og þar kemur fram að um klukkan níu í gærkvöldi hafi magn brennisteins í andrúmslofti í Reyðarfirði mælst rétt yfir 300 míkrógrömm í rúmmetra en það eru neðstu viðmiðunarmörkin.

Í samtali við Austurfrétt sagði Guðfinnur „ótækt" að mælarnir detti út en verkfræðistofan Vista heldur utan um kerfið fyrir stofnunina. Ekki liggur fyrir hvað bilaði.

Gríðarlega há gildi hafa mælst í Hornafirði í gær og í dag og íbúum þar verið ráðlagt að halda sig innandyra. Mælarnir þar eru ekki nettengdir og sömu sögu er að segja um mæla víða um Austurland, til dæmis í næstu byggðarlögum á Djúpavogi og Breiðdalsvík. Þeir mælar eru hins vegar vaktaðir.

„Almannavarnir fengu fólk til að halda utan um þessa mæla og það lætur vita þegar þeir fara yfir ákveðin gildi," segir Guðfinnur og bætir því við að hjá Veðurstofunni sé unnið að gerð upplýsingasíðu þar sem hægt verði að miðla upplýsingum oftar en gert hefur verið, meðal annars úr ótengdu mælunum.

Samkvæmt spám Veðurstofunnar má gera ráð fyrir gosmengun yfir Héraði og Reyðarfirði í dag. Hún færi sig sunnar á bóginn og liggi yfir Djúpavogi um kvöldmatarleytið en færist síðan enn sunnar í kvöld og á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar