Nú er hægt að leigja hljóðbækur á bókasafninu: Vonum að þetta falli vel í kramið
Nokkur af almenningsbókasöfnunum á Austurlandi fengu styrk úr Samfélagssjóði Alcoa í vor til kaupa á hljóðbókum sem sárlega hefur vantað á söfnin.Fyrsti skammturinn af bókum kom austur fyrir skemmstu og voru þær afhentar á haustfundi Austfirskrar upplýsingar þann 17.október. Almenningsbókasöfnin hér fyrir austan skipta svo bókunum á milli sín.
„Þetta er bara fyrsta sendingin, við eigum von á fleiri hljóðbókum. Það eru margir búnir að bíða eftir þessu. Sérstaklega fólk sem á erfitt með lestur og eins fólk sem er að keyra langar vegalengdir.
Svo verð ég að koma því á framfæri að Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi er nú fáanleg hjá okkur á hljóðbók, en þessi sveitarómans hefur verið aðal „hittarinn“ á öllum bókasöfnum um langt skeið. Við erum himinlifandi á bókasafninu og vonum að þetta falli vel í kramið,“ segir Jóhanna Hafliðadóttir forstöðukona Bókasafns Héraðsbúa í samtali við Austurfrétt.
Á myndinni má sjá Júlíu og Sigurlaugu, sérlegar hjálparhellur á Bókasafni Héraðsbúa, taka upp úr kassa frá Hljóðbókaklúbbnum og merkja diskana.
Á myndinni má sjá Júlíu og Sigurlaugu, sérlegar hjálparhellur á Bókasafni Héraðsbúa, taka upp úr kassa frá Hljóðbókaklúbbnum og merkja diskana.