Janne verður forstöðumaður upplýsingatæknimála Alcoa á heimsvísu

janne sigurdsson ssa sept13Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, mun taka við starfi forstöðumanns upplýsingatæknimála (e. Chief Information Officer) hjá Alcoa á heimsvísu. Magnús Þór Ásmundsson tekur við forstjórastarfinu frá og með 1. nóvember.

Tilkynnt var um breytingarnar í dag. Janne mun í nýju starfi bera ábyrgð á upplýsingatæknistefnu fyrirtækisins og öryggi net- og tölvukerfa innan Alcoa. Ný starfsstöð hennar verður í Pittsburgh í Bandaríkjunum.

Janne hóf starfsferilinn hjá álverinu í maí 2006 sem framkvæmdastjóri upplýsingatækni. Fáum mánuðum síðar varð hún framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar og framkvæmdastjóri kerskála var hún frá 2008 til 2010. Hún varð framkvæmdastjóri framleiðslu í apríl 2010 og forstjóri Alcoa Fjarðaáls árið 2012.

Janne á sæti í Samráðsvettvangi um aukna hagsæld á Íslandi og situr í stjórn AMS (Samvinna álfyrirtækja á Norðurlöndunum vegna umhverfis-, heilsu- og öryggismála). Janne er gift Magnúsi Sigurðssyni, múrara frá Eskifirði, og eiga þau tvö börn, Tennu Elísabetu og Ásbjörn Víking.

Magnús Þór hefur gegnt starfi forstjóra Alcoa á Íslandi frá 2012 og mun áfram sinna þeim skyldum en bætir við sig nýju hlutverki sem forstjóri Fjarðaáls. Magnús er rafmagnsverkfræðingur að mennt og hefur starfað hjá Fjarðaáli frá 2009

Hann hefur umfangsmikla reynslu af vöru- og framleiðsluþróunarmálum og hefur m.a. stjórnað innleiðingu stjórnkerfa, umbótum á framleiðsluferlum og í stefnumótun hjá Fjarðaáli. Magnús hóf störf hjá Fjarðaáli sem framkvæmdatjóri framleiðsluþróunar og varð síðan einnig framkvæmdastjóri skautsmiðju árið 2011.

Frá árinu 2012 hefur hann jafnframt verið forstjóri Alcoa á Íslandi. Magnús er í stjórn Samáls og Tækniskólans en áður hefur hann átt sæti í stjórn Viðskiptaráðs og háskólaráðs Háskólans í Reykjavík. Magnús Þór er kvæntur Soffíu G. Brandsdóttur snyrtifræðingi og eiga þau þrjú börn, Sunnu Maríu, Ásmund Hrafn og Sveinbjörn Fróða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar