Fljótsdalshérað bótaskylt vegna meiðsla í líkamsrækt: Merkingar á ensku ekki nóg

baejarskrifstofur egilsstodum 3Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur verið dæmt til að bera skaðabótaábyrgð á helmingi líkamstjóns sem iðkandi í líkamsræktarstöð sveitarfélagsins hlaut við æfingar þar. Dómari taldi merkingum á æfingatæki hafa verið ábótavant.

Slysið varð með þeim hætti að sleði með áföstu trissuhjóli, sem færa má til eftir lóðréttri stoð, losnaði og rann niður stoðina, með þeim afleiðingum að hlíf af trissuhjólinu slóst í höfuð stefnanda.

Efri hluti líkama iðkandans slengdist fram og þegar hann fékk hlífina í höfuðið hlaut hann 6 sm. skurð frá hvirfli fram undir hárlínu. Í skýrslu læknis, sem sá atviki á upptöku úr öryggismyndavél, segir að iðkandinn hafi fengið „mikinn hnykk" og „steinlegið á gólfinu í nokkrar sekúndur" eftir atvikið. Þá var iðkandinn metinn með 12% varanlega læknisfræðilega örorku.

Málsaðilar deildu hins vegar um orsök þess að sleðinn losnaði. Iðkandinn fullyrti að hann hefði hugað sérstaklega að því að þrýstipinni, sem festi sleðann við stoðina, gangi alla leið inn í sleðann. Hann byggði því að slysið mætti rekja til bilunar eða vanbúðar í tækinu.

Niðurstaða héraðsdóms Austurlands er að tækið hafi hvorki verið bilað né vanbúið. Hins vegar gerir dómurinn athugasemdir við merkingar á tækinu sem ekki hefðu dugað til að gera notendum grein fyrir hættunni sem af því stafaði.

Forstöðumanni íþróttamiðstöðvarinnar hafi verið kunnugt um tvö fyrri óhöpp sem orðið hafi þegar pinninn hafi losnað og hættu sem þá gæti myndast. Taldi dómurinn því merkingu á ensku frá framleiðanda nóg enda hafi verið bætt við frekari viðvörun eftir athugasemd Vinnueftirlitsins í kjölfar slyssins.

Sveitarfélagið og tryggingafélag þess, Sjóvá, teljast því bera óskipta skaðabótaábyrgð á helmingi líkamstjóns iðkandans. Þá þurfa þau að greiða tæpar 630.000 krónur í málskostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar