Hætt við að flytja skólabörn frá Stöðvarfirði til Fáskrúðsfjarðar

fbyggd bstjorn stfj 30102014Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum í morgun að falla frá hugmyndum um að flytja nemendur í 5. – 10. bekk Stöðvarfjarðar á Fáskrúðsfjörð. Utanaðkomandi aðili verði fenginn til að taka út rekstur sveitarfélagsins og vinna hagræðingartillögur.

Í bókun bæjarráðs segir að skiljanlegt sé að ugg hafi sett að Stöðfirðingum vegna hugmyndanna og að þær myndu veikja enn frekar stöðu samfélagsins þar. Í umræðunni hafi komið skýrt fram að staða byggðarinnar væri erfið vegna fækkunar íbúa og skorts á atvinnutækifærum síðustu ár.

Bæjarráðið leggur einnig til að skipaður verði þriggja manna starfshópur til að greina stöðu atvinnumála á Stöðvarfirði og möguleika til að auka fjárfestingu í atvinnulífi þar. Gert er ráð fyrir að Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri í atvinnumálum, leiði hópinn en bæjarráð skipi að auki tvo fulltrúa íbúa í hann.

Hópurinn á að skila tillögum og hugmyndum sínum til bæjarstjórnar í febrúar. Eftir umræður þar verði þær kynntar á íbúafundi.

Hugmyndir um að nemendum úr Stöðvarfjarðarskóla yrði næsta vetur keyrt á Fáskrúðsfjörð voru kynntar á fundi í Stöðvarfjarðarskóla síðasta miðvikudag og ræddar á bæjarstjórnarfundi daginn eftir. Þær mættu þegar mikilli andstöðu meðal íbúa sem mættu á bæjarstjórnarfundinn.

Hópur íbúa hafði boðað næsta laugardag til útfarar Stöðvarfjarðarskóla og að greftrun færi fram við skrifstofur sveitarfélagsins.

Í bókun bæjarráðsins kemur á móti fram að þótt hætt sé við þau áform sé samt nauðsynlegt að ráðast í að hagræða í rekstri Fjarðabyggðar á öllum sviðum, þar með talið fræðslumálum.

Bæjarstjóra er því falið að koma með tillögu að utanaðkomandi aðila til að greina möguleika á hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og gera tillögur sem byggi á greiningunni. Úttektin liggi fyrir í febrúar og umræðu um hana verði lokið í bæjarstjórn fyrir lok maí á næsta ári.

Engu að síður verði strax skoðaðar breytingar um yfirstjórn og samvinnu skólastofnana til að ná þeim markmiðum sem nauðsynleg séu til að ljúka gerð fjárhagsáætlunar ársins 2015.

Frá fundi bæjarstjórnar á fimmtudag. Mynd: Björgvin Valur Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar