Enn sótt um framlengingu stöðuleyfis: Kominn tími á að þessar blessuðu búðir fari

alcoa starfsmannathorpAlcoa Fjarðaál hefur óskað eftir framlengingu á stöðuleyfi fyrir starfsmannaþorpið á Reyðarfirði til og með í október 2015. Bæjarfulltrúar segja að þetta verði í síðasta skipti sem slíkt leyfi verði framlengt.

„Það er ekki endalaust hægt að framlengja og framlengja. Þetta á alltaf að vera síðasta skiptið en svo kemur viðbót. Við þurfum að klára þetta," sagði Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar þar sem málið var til umræðu.

„Það er kominn tími á að þessar blessuðu búðir fari að víkja af svæðinu. Allir eru sammála um það, ekki síst Alcoa en ef leyfið verður framlengt þá reynir á að álverið gangi í að ýta á þá aðila sem keypt hafa búðirnar að klára verkið."

Stracta keypti einingarnar af Fjarðabyggð en hefur ekki enn fjarlægt nema hluta þeirra. Samkvæmt áætlun sem fyrirtækið lagði fram í lok september er gert ráð fyrir að „nokkrir tugir" húseininga verði fjarlægðir í haust.

Stærstur hluti eininganna verði á bak og burtu í júní 2015 og svæðið frágengið 15. október 2015. Áætlunin byggir á sölu eininganna til annarra aðila en í svari Stracta segir að mikilvægur áfangi hafi náðst með nýlegum samningi á sölu eininga til PCC vegna framkvæmda á Bakka við Húsavík.

Þrátt fyrir kaupin er frágangurinn á ábyrgð Fjarðaáls en þar vilja menn helst ekki þurfa að farga búðunum. Skólphreinsistöð sem tengdist starfsmannaþorpinu var fjarlægð í haust.

„Svæðið er ætlað undir útivist eða tengda starfsemi og við vildum gjarnan byrja á framkvæmdum við það næsta sumar," sagði Eiður Ragnarsson, formaður eigna-, skipulags og umhverfisnefndar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar