Styðja tónlistarkennara í verkfalli

tonlistarskolakennarar verkfall nesk kaffiStarfsfólk Verkmenntaskóla Austurlands sýndi tónlistarkennurum í verkfalli stuðning sinn í verki með því að bjóða kennurum úr Tónskólanum í Neskaupstað í samstöðukaffi í morgun.

Starfsfólk skólans tók höndum saman og hafði útbúið veisluborð og tók vel á móti á móti stéttarsystkinum sínum. Verkfall tónlistarkennara hefur nú staðið í sléttar tvær vikur.

Tónlistarkennurum hefur borist stuðningur víðar að því kennarafélag Fjölbrautarskólans í Austur-Skaftafellssýslu lýsti nýverið yfir stuðningi við tónlistarkennara og skoraði á viðsemjendur þeirra, sveitarfélögin, að koma til móts við „réttlátar kröfur þeirra í launamálum."

Þá hefur kennarafélag FAS einnig mótmælt fyrirhugaðri skerðingu náms til stúdentsprófs og takmörkun á aðgangi eldri nemenda að námi í framhaldsskólum.

Félagið telur fækkunina koma harðast niður á fámennari skólum á landsbyggðinni og sért vart að þeir lifi af svo harðar aðgerðir. Þá hafi þeir einnig neikvæð áhrif á menntunarstig á landsbyggðinni.

„Hér er að eiga sér stað viðsnúningur í menntapólitík á landinu þar sem stór hópur ungs fólks sem vill ganga menntaveginn er útilokaður frá framhaldsskólum landsins og veitt inn í dýrari úrræði og torveldari.

Þetta er sérstaklega alvarlegt fyrir ungt fólk á landsbyggðinni sem hefur fá önnur úrræði að sækja sér menntun en framhaldsskólana," segir í yfirlýsingu kennarafélagsins.

„Styrkur íslenska framhaldsskólans hefur verið sveigjanleiki þar sem komið er til móts við þarfir mismunandi nemenda.

Framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa þjónað nemendum af landsbyggðinni sem ella þyrftu að fara um langan veg til að afla sér menntunar.

Framhaldsskólar á Íslandi eru með þeim ódýrari í samanburðarlöndum okkar og vart séð að aðgerð sem þessi muni spara fjármagn til lengri tíma litið."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar