Fljótsdalshérað: Ekki hægt að hægt að tengja lokun Upplýsingamiðstöðvar við skoðun á framlagi
Sveitarfélagið Fljótsdalshérað telur ekki hægt að tengja lokun Upplýsingamiðstöðvar Austurlands við skoðun á framlagi þess til stöðvarinnar. Bæði Fljótsdalshérað og Samband sveitarfélaga á Austurlandi lýsa yfir áhyggjum af stöðunni.Upplýsingamiðstöðinni var lokað í byrjun vikunnar erfiðleika vegna rekstrarerfiðleika. Í tilkynningu vegna lokunar var bent á að fjármagn frá Ferðamálastofu Íslands hefði minnkað auk þess sem sveitarfélagið Fljótsdalshérað endurskoðaði nú framlag sitt.
Í tilkynningu Fljótsdalshéraðs frá í morgun er bent á að sveitarfélagið sé hið eina á Austurlandi sem leggi miðstöðinni beint til fjármagn, 3,8 milljónir á ári og ávallt staðið við allar greiðslur.
Þótt atvinnu- og menningarnefnd sveitarfélagsins hafi verið að skoða rekstrarframlag til stöðvarinnar hafi engin ákvörðun verið tekin og því tengist lokunin skoðuninni ekki á neinn hátt.
Sveitarfélagið harmar annars lokunina því mikilvægt sé að ferðamenn hafi aðgang að réttum upplýsingum, ekki síst þegar vetur er genginn í garð og eldgos standi yfir í Holuhrauni.
Sveitarfélagið hvetur því hagsmunaaðila til að leita lausna á vanda upplýsingamiðstöðvarinnar og vonast til að farsæl lausn fáist í málinu.
Í samþykkt framkvæmdaráðs Sambands sveitarfélaga á Austurlandi frá í gær er lýst yfir þungum áhyggjum af stöðinni. Ljóst sé að hið opinbera verði að tryggja frekara fjármagn til rekstursins, ekki síst í ljósi þeirra aðstæðna sem séu vegna eldgossins.
Samræmi verði að vera á milli þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið opinberlega um „Ísland allt árið" og þess fjármagns sem veitt er til upplýsingagjafar til ferðamanna.