K100 farin að hljóma á Egilsstöðum: Vonum að Héraðsbúar taki okkur vel

K100 svaliÞað komst í fréttirnar á dögunum að útvarpsmennirnir vinsælu Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson snúa aftur í útvarp 21. nóvember næstkomandi með þátt sinn Simmi og Jói. Að þessu sinni verður þátturinn á útvarpsstöðinni K100 sem nú þegar er farin að hljóma á Egilsstöðum á tíðninni fm100,5.

Það var dagskrárstjóri Skjásins sem á og rekur K100, Pálmi Guðmundsson sem sannfærði félagana um að snúa aftur eftir eins og hálfs árs hlé. Þeir settu aðeins eitt skilyrði: Að komið yrði upp útvarpssendi á Egilsstöðum, svo móðir Simma, Gerður Unndórsdóttir, gæti hlustað á þáttinn og verið fastagestur í honum eins og forðum daga á Bylgjunni, en þar ræddi hún gjarnan um kveðskap og las ljóð í beinni útsendingu.

„Þetta kom til þannig að Simmi og Jói komu í viðtal til okkar Svavars í morgunþáttinn á K100 og léku á alls oddi. Pálmi var búin að heyra af því að þeir söknuðu útvarpsins og greip þá glóðvolga eftir spjallið og nefndi þessa hugmynd við þá og það var hreinlega farið viðræður í beinu framhaldi,“ segir Sigvaldi Þórður Kaldalóns, eða Svali dagskrárstjóri K100 í samtali við Austurfrétt.

En var ekkert mál að ganga við skilyrðinu sem þeir settu um sendinn?

„Það kom mér ekkert á óvart þegar Simmi nefndi þetta og í raun fannst mér þetta nánast vera rökréttur hlutur fyrir hann að setja í samninginn. Hann getur að sjálfsögðu ekki farið í loftið án þess að mamma hans heyri það,“ segir Svali og hlær. „Það er samt lán í óláni að þeir mættu í þetta viðtal. Við erum búin að vera að tala um það lengri tíma tíma að stækka hlustunarsvæðið og þetta ýtti bara ferlinu af stað. Nú eru Egilsstaðir komnir inn og fleiri staðir væntanlegir innan skamms. Þetta er því bara meiriháttar. Ég vil meina að Simmi hafi flýtt ferlinu með því að vera svona kröfuharður.“

Þáttur Simma og Jóa verða á dagskrá K100 á föstudagsmorgnum milli kl. 9 og 12 og verður svo endurfluttur á laugardagsmorgnum. Fyrsti þátturinn fer í loftiið þann 21. nóveber næstkomandi.

„Við eigum án efa eftir að koma í heimsókn með allt okkar hafurtask, og við erum spennt fyrir að hljóma í viðtækjum á Egilsstöðum á komandi árum. K100 er létt og skemmtileg útvarpstöð fyrir fólk á aldrinum 18 til 49 ára og við vonum að Héraðsbúum líki vel við það sem við höfum fram að færa,“ segir Svali að lokum.

Mynd: Sigvaldi Þórður Kaldalóns, dagskrárstjóri K100

k100

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar