Vilja lágmarka fé sem fer í vaxtagreiðslur: Forsendur fjárhagsáætlunar sagðar óljósar

pall bjorgvin gudmundsson 2014 skoriGert er ráð fyrir að heildarafgangur af rekstri Fjarðabyggðar á næsta ári verði yfir 300 milljónir en A-hluti sveitarfélagsins verður við núllið. Minnihluti bæjarstjórnar segir ýmsar forsendur hennar óljósar.

Í kynningu áætlunarinnar segir að hún byggi á tveimur grunnmarkmiðum. Að nægilegur afgangur verði að rekstrinum til að hægt sé að standa undir afborgunum látna og skuldbindinga og ekki þurfi að taka lán fyrir rekstri eða afborgunum lána.

Rekstri sveitarfélaga er skipt upp í A-hluta og B-hluta. Í A-hlutanum eru verkefni sem eingöngu eru fjármögnuð með skatttekjum, svo sem rekstur skóla en í B-hlutanum fyrirtæki eða aðrar rekstrareiningar sem sveitarfélögin eiga helming eða meira í og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar samkvæmt lögum.

Ger er ráð fyrir að hagnaður samstæðu sveitarfélagsins fyrir fjármagnsliði verði 763 milljónir, þar af 298 milljónir í A-hluta. Þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnsliðanna er rekstrarafgangurinn 311 milljónir í heildina, þar af ekki nema tvær milljónir hjá A-hluta. Vaxtagreiðslur sveitarfélagsins nema því tæpum 420 milljónum króna.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, lagði á það áherslu að endar næðu saman í rekstrinum með handbæru fé til að koma í veg fyrir lántöku þegar hann fylgdi áætluninni úr garði við fyrstu umræðu um hana á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur fylgst með fjármálum Fjarðabyggðar um árabil þar sem skuldir þess eru yfir viðmiði. Áætlanir gera ráð fyrir að þær verði greiddar hraðar niður heldur en upphaflega var ráð fyrir gert. Reiknað er með að skuldaviðmið í lok árs 2015 verði 150,9% en það er 150% samkvæmt lögum.

„Við erum ekki bara að hugsa um lögin heldur að geta um frjálst höfuð strokið gagnvart eftirlitsnefndinni. Við viljum líka losa um fé sem fer í vaxtagreiðslur til að geta notað það til að vinna fyrir fólkið í sveitarfélaginu," sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar sem varaði við stórum afborgunum af skuldabréfum árið 2016.

Gert er ráð fyrir hækkun tekna á milli ára en Páll Björgvin varaði þó við sveiflum í fiskverði og álverði. „Það er bónus fyrir fjárhag sveitarfélagsins ef loðnuveiðin verður góð," sagði Páll Björgvin og Jón Björn sagði menn binda vonir við tekjur af olíuleit á Drekasvæðinu. Þá er gert ráð fyrir að flestar gjaldskrár hækki í samræmi við áætlaða verðlagsþróun.

Fulltrúar Fjarðalistans sögðu mörg óljós atriði í áætluninni en fulltrúi listans í fræðslunefnd samþykkti áætlun nefndarinnar með fyrirvara með fyrirvara um að heildstæðri vinnu við fjárhagsáætlunina væri ekki lokið.

„Þetta er fimmta fjárhagsáætlunin sem ég tek þátt í að vinna og hún er ólík öllum hinum því í henni eru mörg óljós atriði," sagði bæjarfulltrúinn Eydís Ásbjörnsdóttir.

Eftir að vinnu nefndarinnar lauk komu fram hugmyndir um að keyra grunnskólabörnum frá Stöðvarfirði á Fáskrúðsfjörð í skóla. Hart var tekist á um þær á fundinum en þær hafa nú verið dregnar til baka.

Bæjarfulltrúar Fjarðalistans samþykktu að vísa fjárhagsáætlun til seinni umræðu í bæjarstjórn en bókuðu fyrirvara við forgangsröðun, einkum í fræðslumálum. Einnig töldu þeir „mikilvægum spurningum ósvarað um aðgerðir og framkvæmdaáætlanir.“

Stærsta fjárfesting A-hluta á næsta ári verður í byggingu nýs leikskóla í Neskaupstað fyrir 250 milljónir króna. Fimmtán milljónir eru einnig ætlaðar í snjóflóðavarnir á Eskifirði og nýframkvæmdir í gatnagerð.

Fjárfestingar hafnarsjóðs, sem heyrir undir B-hlutann, nema 308 milljónum. Þar af fara 210 milljónir í Norðfjarðarhöfn og 78 milljónir í Reyðarfjarðarhöfn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar