Fljótsdalshérað: Samþykkt að gera úttekt á skólastofnunum
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur samþykkt að ráðast í heildarúttekt á skólastarfi í grunn- og tónlistarskólum sveitarfélagsins. Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu að tillagan kæmi fram þegar fræðslunefnd hefði lokið vinnu við fjárhagsáætlun.„Það er ljóst að þetta nemur einhverjum milljónum króna. Úttekt sem kostar minna er ekki þess virði og það eru þess konar útgjöld sem fræðslunefnd hefur ár eftir ár eftir ár verið í stökustu vandræðum með að finna stað innan fjárhagsáætlunar," sagði Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarmanna.
Gert var ráð fyrir úttektinni í meirihlutasamkomulagi Á-lista, Sjálfstæðisflokks og Héraðslista. Í samþykkt bæjarráðs er bæjarstjóra falið að hafa samband við miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri um að vinna úttektina eftir fyrirfram ákveðinni lýsingu sem bæjarráðið vinni.
Í umræðum um bæjarstjórn virtist samstaða um gagnsemi úttektar. „Það er ekki vond ákvörðun að gera þetta og ég treysti engum betur til þess en miðstöð skólaþróunar en einhvers staðar frá þurfa þessir peningar að koma og þeir verða ekki notaðir í annað á meðan."
Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs, sagði nákvæman kostnað við úttektina ekki liggja fyrir og þótt menn hefðu hugmyndir um kostnað væri ekki rétt að nefna þær fyrirfram. Hann hét því að fé yrði fundið í áætlunina. Bætt yrði við fjármagni til fræðslumála en ekki tekið af því fé sem þegar væri búið að ráðstafa í þau.
Framsóknarmenn ræddu einnig orðalag tillögunnar sem þeir sögðu geta virkað eins og búið væri að ákveða niðurstöðu úttektarinnar. Því hafnaði Gunnar.
„Það þarf að ganga frá því í bæjarráði nákvæmlega við hverju við ætlum að fá svör. Við ætlum alls ekki að ákveða svörin. Það er alveg á hreinu."
Von er eftir að niðurstöður úttektarinnar liggi fyrir í mars eða apríl og hægt verði að nota þær við áætlanagerð fyrir árið 2106. Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar, vonast til að niðurstöðurnar létti fræðslunefnd vinnuna í framtíðinni.
„Ég veit að fræðslunefndin hefur setið yfir fjárhagsáætlun og velt fyrir sér hvernig hægt sé að koma óskum skólanna inn í rammann. Það var ekki létt verk og hún hefur þurft að hafna óskum fræðslustofnana um aukið fjármagn.
Við viljum þróa skólastarfið og bæta það en við gerum það ekki nægilega vel ef við erum á hverju ári að reyna að troða því sem þarf inn í þrönga fjárhagsáætlun.
Með þessu getum við fengið betra yfirlit yfir skólana, hvað mögulegt sé að samnýta eða gera betur þannig það nýtist öllum og styrkt skólana úti í dreifbýlinu."
Gunnar Jónsson sagði mikilvægt að verja sveitaskólana. „Dreifbýlið má síst við að kreppt verði að þeirra skólum. Við verðum að velta því upp hvernig við getum tryggt að fræðsla grunnskólabarna verði sem best úti í dreifbýlinu og íbúar þar geti verið sem mest við sömu kjör og aðrir þegnar sveitarfélagsins."