Breiðdalsvík í Pocket Guide: Kostaði ekki nema 250.000 kr.

breiddalsvik2008Nú er hægt að nálgast rafræna leiðsögn í Breiðdal og Breiðdalsvík í appi frá Pocket Guide. Verkefnið um rafræna leiðsögn í Breiðdal varð til á íbúaþingi fyrir tæplega ári síðan.

„Þetta er í raun og veru app eða svona snjallforrit sem þú getur sótt í símann þinn sem leiðir þig um Breiðdalinn. Þetta er í raun leiðsögn á íslensku, ensku eða þýsku um átján staði á svæðinu og er hver kynning um tvær mínútur í senn á hverjum stað. Viðkomandi heyrir lesin texta og svo birtast myndir líka. Þetta er mjög sniðugt,“ segir Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepp í samtali við Austurfrétt.

Hugmyndinni vel tekið

Hvernig kemur þetta til? „Það var nú bara þannig að ég var lengi búin að hafa áhuga á þessu. Ég vissi af leiðsöguforritinu víða, bæði hérlendis og erlendis og þar sem fólk var að nota þessa nýju tækni með góðum árangri. Ég fór að kanna þetta og fór svo með pælinguna á íbúaþingið sem var haldið á Breiðdalsvík í fyrra. Það var tekið vel í hugmyndina og fengum við styrk til þessa að vinna verkið og við fórum af stað. Í framhaldi setti Austurbrú sig í samband við fyrirtækið Pocket Guide og gerði samning við þá varðandi kostnað og fleira. Ég veit að það voru einir fimm staðir á Austurlandi sem höfðu áhuga á að fara inn í þetta.“

Samvinna

Austurbrú gerði samning við fyrirtækið með það að markmiði að byggðarlög í fjórðungnum gætu komið sameiginlega fram með rafræna leiðsögn fyrir svæðið. Í byrjun nóvember var svo lokið við að setja Breiðdalsvík inn og á næstu misserum munu fleiri væntanlega fylgja í kjölfarið.

„Útkoman er flott en þetta var svo sannarlega ekki eins manns verk. Við hjálpuðumst að til að láta þetta verða að veruleika. Ég samdi textann og kryddaði hann með smásögum um hvern stað fyrir sig, en það er til óheyrilega margar gamlar sagnir sem eru svo skemmtilegar. Svo var oppnuð grúbba á Facebook þar sem við óskuðum eftir myndum og það var fullt af fólki sem lagði þær til. Margar mjög flottar sem við svo notuðum í appið. Þetta var mikilvægt framlag. Svo var það Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður sem las inn íslenska textann, og um upptökur sá maðurinn hennar Halldór Warén, tónlistarmaður. Þetta var allt unnið hérna fyrir austan, og það finnst mér frábært," segir Hákon en lokafrágangur tæknivinnunnar sem og lestur á ensku er þó unnin erlendis.

Sáttur við útkomuna

En var þetta dýr framkvæmd?„Nei, það get ég ekki sagt. Kostnaðurinn var tvöhundruð og fimmtíuþúsund krónur. En að því sögðu hefði alveg verið hægt að gera þetta flottara, þá hefði það bara kostað meira pening. En miðað við það fjármagn sem við höfðum til að spila úr finnst mér þetta hafa heppnast mjög vel og það er gleðilegt að þetta er komið í gagnið,“ segir Hákon.

Hægt er að nálgast forritið á vef Pocket Guide: http://pocketguideapp.com/en/city/map

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar