Flúorfræðingur: Ekki hafa áhyggjur af bláberjunum

alan davison alcoaBreski flúorsérfræðingurinn Alan Davison telur að íbúum á Reyðarfirði stafi engin hætta af flúormengun frá álverinu í Reyðarfirði. Þá hafi til þessa skort frekar upplýsingar til að geta túlkað tölur og sett í samhengi.

„Þið hafið fengið upplýsingar en ekki nema brot af þeim upplýsingum sem þið þurfið. Ykkur vantar söguna alla til að geta túlkað upplýsingarnar. Tölur sem ekki hefðu átt að valda ykkur áhyggjum gera það. Fólk er að reyna að túlka tölur sem ekki er hægt að túlka," segir Alan Davison.

Alan er Englendingur og fyrrum prófessor í umhverfislíffræði við háskólann í Newcastle. Hann hefur í yfir 40 ár rannsakað áhrif flúors á umhverfi fyrir fyrirtæki, sveitarfélög og skólastofnanir og þykir einn fremsti sérfræðingur heims á því sviði.

Hann kom að því að hanna og setja upp mælakerfi í kringum álverið í Reyðarfirði. Hann talaði þar á opnum fundi á fimmtudagskvöld en íbúar hafa haft áhyggjur þar sem flúorgildi hafa mælst yfir viðmiðunarmörkum.

Mælingarnar hafa gengið vel

Alan sagði menn helst hafa haft áhyggjur af furutrjám í Reyðarfirði sem safnað gætu í sig flúor. Síðar hafi komið í ljós að efnið barst lengra inn í fjörðinn til vesturs en ráð var fyrir gert.

Árið 2007 var mælum fjölgað og komið fyrir á beitarsvæðum. „Grasmælingar sýna hversu víða flúorinn dreifist og hann hefur farið á staði sem við áttum ekki von á."

Alan sagði að mælingarnar hefðu reynst vel en nú þyrfti að finna hvað stýrði dreifingunni til að hægt yrði að spá betur fyrir um hana. Áfram yrði eftir lit eflt. Þá kæmi á óvart að þótt flúorgildin væru ekkert sérstaklega há næst álverinu minnkuðu þau lítið eftir því sem fjær drægi.

En þótt mælingarnar hafi mælst yfir viðmiðunarmörkum í Reyðarfirði telur Alan að Reyðfirðingum stafi engin hætta af flúornum.

„Ég skal borða bláberin"

„Ég hef heyrt leiðbeiningarnar um að það eigi að skola berin og mér finnst það þvæla. Efnið fer ekki í gegnum hýðið þannig berin sjálf eru laus við flúor. Yfirborðið þeirra er lítið þannig að lítið af efninu safnast þar fyrir," sagði Alan og benti á að flúor væri að finna í ýmsum neysluvörum, til dæmis te.

„Ekki hafa neinar áhyggjur af bláberjunum. Ég skal borða þau, þau eru miklu betri hér en í Englandi. Þið fáið meira flúor úr einum tebolla heldur en heilum vörubílsfarm af berjum héðan."

Áhrif á dýrum sjást

Dýrum kann að vera meiri hætta búin af efninu þótt Alan telji hana takmarkaða, meðal annars þar sem skepnurnar bíti frekar lágvaxnari gróður heldur en þann hærri sem safni á sig efnum sem falli á hann.

Flúor binst við kalk og getur því haft áhrif á bein og liðamót dýranna. Tannskoðanir taldi Alan koma að takmörkuðu gagni en frekar væri að horfa á dýrin og sjá hver þeirra standi asnalega eða sýni slík merki.

„Ef þið viljið vita ástandið á skepnunum þá skuluð þið spyrja bændurna því þeir sjá þetta. Ekki skoða tölurnar á netinu."

Þar sem flúorinn binst kalkinu verður hann ekki eftir í vöðvum eða kjöti. Það á jafnt við upp öll dýr. Þá segi stakar mælingar lítið um gæði fóðurs heldur þurfi til þess meðaltöl yfir árið. Rigning að kvöldi dragi til dæmis úr styrk flúors daginn eftir.

Minnst losun frá Fjarðaáli

Alan kvaðst byggja sínar fullyrðingar á vísindalegum gögnum sem gestir ættu að geta leitað uppi. Hann varaði menn samt við að trúa hvaða heimildum sem er. „Ekki trúa 99% af því sem þið finnið á netinu. Margt af því er skrifað af fólki sem er á móti flúor og skrifar það sem því dettur í hug," sagði Alan sem hvatti menn til að treysta gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Alan sagði að víða hefði flúorgildi hefðu víðar mælst of há. Alls staðar vöknuðu sömu spurningarnar þótt vandamálin væru misjöfn í ólíku umhverfi.

„Þegar ég var yngri hélt ég að ég vissi allt um flúor. Svo varð ég fertugur og komst að því að svo væri ekki. Þess vegna er að gaman að koma á staði eins og hér þar sem maður lærir eitthvað nýtt.

Ferlið er flókið og verksmiðjurnar hafa sjaldnast fólk sem skilur það. Því er sótt í sérfræðinga eins og mig. Það eru til um 250 verksmiðjur í heiminum sem losa flúor og þessi losar minnst af þeim sem ég hef kynnst."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar