Unnið að áætlun um sameiningu framhaldsskóla: Heimamenn hafa áhyggjur af skólunum

kristjan moller sept14 3Menntamálaráðuneytið vinnur nú að áætlunum sameiningu eða samvinnu framhaldsskóla á landsbyggðinni. Þingmaður Norðausturkjördæmis segir heimamenn hafa miklar áhyggjur af stöðu framhaldsskólanna.

„Það má eiginlega segja að frá fyrsta klukkutímanum þegar við settumst niður á Egilsstöðum fóru að berast okkur áhyggjur sveitarstjórnarmanna og skólayfirvalda af því sem verið var að gera í framhaldsskólamálum," sagði Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, í ræðustól á Alþingi í síðustu viku.

Kristján vísaði þar til kjördæmaviku þingmanna fyrir skemmstu og spurði Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra út í spár um fækkun nemenda á landsbyggðinni en samhliða þeim er dregið úr raunfarmlögum til skólanna.

Í viðtali við Austurgluggann nýverið gagnrýndi Helgi Ómar Bragason, skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum, áformin og sagði þau koma harkalega niður á landsbyggðarskólunum. Hann undraðist einnig að fækkun nemenda væri nær eingöngu bundin við landsbyggðarskóla en Í ME er gert ráð fyrir fækkun upp á 50 nemendur á milli ára.

Í svari við fyrirspurn Kristján staðfesti ráðherrann að unnið væri að áætlun um samvinnu eða sameiningu framhaldsskólanna. Hún væri til að bregðast við fyrirséðri fækkun í árgöngum sem komu upp úr grunnskólum víða á landsbyggðinni næstu árin.

Illugi hafnaði því hins vegar að til stæði að leggja niður skólana heldur styrkja starfsemina þar sem hún sé fyrir og tryggja fjölbreytt námsframboð.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar spurðu Illuga eftir því hvort bætti yrði í þar sem gert væri fyrir „óeðlilegri fækkun" eins og á Egilsstöðum, hvers vegna skorið væri niður í fræðslu fyrir 25 ára og eldri sem geti þá ekki endilega sótt sér menntun í heimabyggð og hvort verið væri að ræða sameiningar ákveðinna skóla og þá hverra. Við þeim spurningum fengust ekki skýr svör.

Kristján Möller lýsti þeirri skoðun sinni að ríkisstjórnin væri að skera niður í menntamálum til að sýna hallalaus fjárlög.

Því hafnaði Illugi og sagði verið að auka framlög til framhaldsskólanna. Framlag á hvern nemanda hefi verið komið niður í 900.000 krónur en það yrði 1.090 þúsund á næsta ári. Framlag á hvern grunnskólanema er 1,5 milljónir.

„Það er því algjörlega rangt sem hér er haldið fram að þetta sé gert til að spara fjármuni. Þetta er til að komast úr óásættanlegri stöðu. Kristján Möller var í hópi þeirra sem báru ábyrgð á henni með því að skera niður framlög til framhaldsskólans um 2 milljarða á síðasta kjörtímabili og fjölga nemendum og veikja þar með allt skólastarf í landinu.

Enda er íslenski framhaldsskólinn í þeirri stöðu að námsframvinda þar er einhver sú lélegasta í OECD-ríkjum og, virðulegi forseti, brottfall gríðarlegt. Ætli það hafi ekki eitthvað að gera með framlag á hvern nemanda?"

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar