Flottir krakkar stofna Edrúfélag: Skuldbindum okkur að blása í áfengismæli fyrir viðburði

Edrufelag va neskaupstadUm miðjan síðasta mánuð mættu fimmtán frískir nemendur á stofnfund Edrúfélags Verkmenntaskóla Austurlands. Formaður félagsins er hin átján ára gamli Tristan Theodórsson nemi í VA. Varaformaður er Yngvi Orri Guðmundsson.

„Það mættu fimmtán manns á stofnfundinn í október. Nú þremur vikum síðar eru skráðir tuttugu fjórir meðlimir og félagið fer vaxandi,“ segir Tristan í samtali við Austurfrétt

Skilyrði fyrir aðild að félaginu er skuldbinding til að mæta allsgáður á viðburði skólans og sýna fram á það með því að blása í áfengismæli sé það í boði.

„Já, þetta er satt, en nær bara yfir félagsmenn. Þú skuldbindur þig til þess að blása í áfengismæli fyrir uppákomur. Regla númer eitt, tvö og þrjú er að þú veður að vera edrú á öllum viðburðum á vegum skólans. Þú hvorki reykirðu né drekkur eða notar önnur vímuefni. Það er mjög mikilvægt. Við erum samt ekki að ráðskast með líf nemenda utan skólans, við hreinlega getum það ekki,“ segir Tristan.

Að sögn formannsins er tilgangur Edrúfélagsins fyrst og fremst forvarnir . „Og að halda Verkmenntaskólanum áfengis- og vímuefnalausum eins og við getum. Það er verðugt markmið. Og til að gera þetta meira spennandi fá félagar ákveðin fríðindi sem fylgja því að vera með. Það kostar til dæmis minna að fara inn á skólaviðburði og ferðir og fleira. Svo munum standa fyrir einum til tveimur viðburðum á önn sem er einungis fyrir félagsmenn og konur.“

En hvaða viðhorf hefur Tristan til áfengis? „Ég hef aldrei drukkið og mér finnst ekkert spennandi við það. Í fyrsta lagi er þetta brjálæðislegur kostnaður og í öðru lagi hef ég aldrei átt erfitt með að skemmta mér áfengis- og vímuefnalaus. Hvort ég eigi eftir að hafa þetta alltaf að leiðarljósi kemur í ljós. En ég er ekki að fara að byrja á neinu og mín stefna er að halda því svoleiðis út lífið,“ segir formaðurinn að lokum.

Edrúfélagið er fyrir nemendur í Verkmenntskóla Austurlands og þeir sem hafa áhuga á því að vera með geta haft samband á facebooksíðu félagsins Edrúfélag VA.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.