Eftirlitsvélar komnar upp við Selárlaug á Vopnafirði

selardalslaug mmt webFyrir skemmstu unnu starfsmenn Securitas að uppsetningu eftirlitsmyndavéla við Selárlaug en sem kunnugt er hefur sveitarfélagið fjárfest í nýbyggingu og tækjabúnaði fyrir háar fjárhæðir. Auk myndavélanna verður áður en langt um líður sett upp mannheld girðing um laugina.

Um þessar mundir er Selárlaug opin milli kl. 10:00-12:00 virka daga og milli kl. 12:00-16:00 um helgar. Aðra tíma er Selárlaug lokuð og með eftirlitsmyndavélunum er eigandinn, sveitarfélagið, í allt annarri stöðu en áður til að fylgjast með eign sinni. Um er að ræða fullkominn útbúnað frá Hikvision, sem inniheldur m. a. upptökubúnað sem hægt er að skoða þegar henta þykir. Eða vakta skjái í beinni útsendingu.

Að sögn Gísla Árnasonar hjá Securitas á Akureyri, sem annaðist uppsetningu búnaðarins, eru viss atriði sem spurt meira um en önnur. Kom hann með eftirfarandi dæmi:

Hver er að fylgjast með myndunum? Það er skilyrt að það á ekki að vera skoða upptökur nema rökstuddur grunur liggi fyrir að eitthvað hafi gerst. Við slíkan grun ætti það að vera lögregla sem fær gögnin til skoðunar og ekki aðrir. Einnig skyldi eigandi kerfisins skilgreina hver má fletta upp í upptökum. Oftast er við hæfi að það sé einungis yfirmaður/stjórnandi sem það gerir - aðrir eiga ekki að hafa aðgang að upptökum. Starfsmenn, t. d í sundlaugum, hafa einungis möguleika á að horfa á „lifandi“ myndir, það er að segja ekki upptökur.

Má vera með myndavélakerfi hvar sem er? Nei, ekki hvar sem er. Sundlaugar eru opinber staður sem krafa er orðin á um myndvöktun en það er háð ákveðnum skilyrðum. Einfalda vangaveltan er sú að ef maður er á opinberum stað þar sem sést til hlutaðeigandi hvort eð er þá er í lagi að vera með myndavélar. Það skilyrði er þó sett að þar sem eftirlitsmyndavél er verður að greina frá því með skilmerkilegum hætti.

Er verið að taka upp hljóð? NEI ... Þar kemur að sömu vangaveltum og að ofan. Ef maður er á opinberum vettvangi sést til hlutaðeigandi en tal hans við sjálfan sig eða aðra er alfarið hans einkamál. Hljóðupptökur eru því ekki leyfðar.

Tilgangurinn með uppsetningu eftirlitsmyndavélana er Öryggi númer eitt, tvö og þrjú. Öryggi fyrir gesti sundlaugarinnar um leið og verið er að koma í veg fyrir óæskilega hegðun; svo sem skemmdir eða áhættuhegðun, t. a. m. neyslu áfengis í sundlaugum. Þetta virkar gagnkvæmt fyrir eigendur sundlaugar og gesti. Það er að segja að með því að stöðva hina óæskilegu hegðun sparast fjármunir auk þess sem öryggisþættinum er mætt með verðugum hætti.

Það var vefur Vopnafjarðar sem greindi frá þessu fyrir skemmstu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar