Fundu hundaskít í sandkassanum: Þetta er ekki það sem maður vill sjá á leiksvæði barna
Þau voru ekkert sérlega hrifin, litlu börnin á leikskólanum Brekkubæ á Vopnafirði þegar þau komu auga á hundaskít í sandkassanum sem þau voru að leika sér í.Það var vefur Vopnafjarðar sem greindi frá þessu í síðustu viku. Það mun löngum hafa verið vandamál að eiga við kettina, sem fara ferða sinna án eftirlits, en hundar eiga undir engum kringumstæðum að vera lausir - lausaganga þeirra er með öllu óheimil.
„Það voru krakkarnir sem fundu þetta og létu okkur vita. Mér fannst þetta virkilega ógeðslegt, og þetta er ekki það sem maður vill sjá í sandkassa eða á leiksvæði barna. Ég hélt að þetta væri kattarskítur en svo var ekki, enda erum við með kattafælu og höfum ekki verið að finna kattarskít í kassanum,“ segir Sandra Konráðsdóttir, leikskólakennari í samtali við Austurfrétt.
Hundahald er heimilt á Vopnafirði en hundaeigendum er skylt að hafa þá í bandi.
„Þetta hlýtur að hafa verið laus hundur. Ég trúi því bara ekki að viðkomandi hundaeigandi hafi bara leyft honum að gera þarfir sínar í kassann og labbað svo í burt. En það eru allir sammála um að þetta var ógeðslegt. Við biðjum bara hundaeigendur að passa dýrin sín betur, við viljum síst af öllu sjá þetta gerast aftur,“ segir Sandra.
Mynd: Leikskólinn Brekkubær