Vonast til að verkfall tónlistarkennara fari að leysast
Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar vonast til að verkfall tónlistarkennara fari að leysast en það hefur staðið í yfir fjórar vikur. Tónlistarkennarar á Austurlandi efndu til mótmælagöngu við bæjarskrifstofur Fjarðabyggðar fyrir bæjarstjórnarfund í gær.„Við vonumst til að þetta fari að hnikast í rétta átt. Önnin er svo gott sem farin en þetta hefur áhrif á félagslíf í skólum og menningarlíf á minni stöðum.
Þetta er ekki bara tónskóli heldur stór partur af menningarlífinu á svæðinu," sagði Jón Björn í samtali við Austurfrétt í dag en forsvarsmenn bæjarstjórnarinnar ræddu við mótmælendur í gær.
Hann minnir hins vegar á að tvo þurfi til að leysa verkfallið. Tónlistarkennarar hafi farið fram á sambærileg laun og aðrir kennarar en sveitarfélögin vilji nálgast samningana á sama hátt og við aðra kennara fyrr á árinu þar sem skipt hafi verið á vinnueiningum. Á það hafi kennararnir ekki fallist.
Samninganefnd sveitarfélaga lagði fram nýtt tilboð í gær en ekki hafa borist viðbrögð við því frá samninganefnd tónlistarkennara.
Ekki náðist í talsmenn austfirskra tónlistarkennara við vinnslu fréttarinnar.