Lunga skólinn fyrirtæki ársins á Austurlandi: Þetta er eins og að fá vind í seglin

lunga skolinnLungA skólinn á Seyðisfirði  hlaut nýlega viðurkenningu Morgunblaðsins, Vitann 2014, á Austurlandi.

Vitinn er viðurkenning Morgunblaðsins til fyrirtækja sem vísað hafa vegin með frumkvæði í atvinnusköpun á Íslandi. Árlega hljóta tíu fyrirtæki um allt land þennan heiður.  Lunga skólinn fær þessa viðurkenningu fyrir að vera fyrirtæki ársins á Austurlandi fyrir öflugt starf  landi og þjóð til heilla.

LungA er einkarekinn lýðháskóli með áherslu á listir, sköpun og mannrækt og sérstöðu hvers einstaklings. Í honum eru ellefu nemendur, íslenskir og erlendir, sem allir greiða skólagjöld. Kennarar eru þrír auk stundakennara og er þetta er um 20 manna samfélag í allt.

LungA  skólinn er fyrsti skóli sinnar tegundar á Íslandi hóf reglulega starfsemi í haust eftir tilraunakennslu með átján nemendur síðast liðið vor. Hugmyndin að skólanum spratt upp af samnefndri listhátíð ungs fólks á Seyðisfirði. Sú hátíð hefur frá árinu 2000 dregið þúsundir gesta til bæjarins á hverju sumri.

„Við fengum þessar gleðifréttir fyrir rúmum tveimur vikum.  Við erum ótrúlega þakklát fyrir þessa viðurkenningu og það er alltaf gott að fá klapp á bakið, það virkar svona eins og að fá vind í seglin,“ segir Björt Sigfinnsdóttir, skólastýra LungA skólans.

Mynd: lungaschool.tumblr.com


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar