Eru austfirsk fyrirtæki samkeppnishæf?

malbikun fagridalur juli14Austurbrú stendur á föstudag fyrir málþingi á Breiðdalsvík um útboð og samkeppnishæfi fyrirtækja á Austurlandi. Málþingið er öllum opið en það er hluti af NORA verkefni sem Austurbrú tekur þátt í.

Austurland stendur á tímamótum í atvinnulegu tilliti. Fyrir dyrum standa mögulega tvö mjög stór alþjóðlega verkefni á svæðinu og brýnt er að fyrirtæki og verktakar á staðnum séu undir það búin að taka þátt í útboðum og verkefnum vegna framkvæmda af þessari stærðargráðu.

Mikil krafa er gerð um ýtrustu vottunarstaðla og öryggisáætlanir fyrirtækja sem þátt taka í alþjóðlegum verkefnum af þessu tagi.

Á málþinginu mun Árni Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins fjalla um kröfur um fjárhagslegt hæfi, Ólafur Atli Sigurðsson frá Alcoa Fjarðaáli, Sigurður Björnsson frá Landsvirkjun, Sigurður Arnalds frá Mannviti og Magnús Helgason og Ásgeir Ásgeirsson frá Launafli munu fjalla um kröfur í alþjóðlegu umhverfi frá ýmsum hliðum. Fundarstjóri er Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri í Fjarðabyggð.

Málþingið er liður í Nora-verkefni sem Austurbrú tekur þátt í undir yfirskriftinni NABIC – Northern Atlantic Business Innovation Centers en markmið verkefnisins er að styrkja atvinnuþróun og nýsköpun sem og samstarf á milli þeirra sem taka þátt í verkefninu.

Sérstök áhersla er á að efla fyrirtæki á hverju svæði í faglegri vinnu við gerð umsókna, útboða og samninga. Þátttakendur í NABIC eru frá Íslandi, Grænlandi, Noregi.

Málþingið verður haldið á Hótel Bláfelli á Breiðdalsvík frá kl. 10.00-12.00. Síðasti dagur skráningar er í dag. Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða með því að hringja í 470 3800.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar