Áhyggjur af vatni á Norðfjarðarflugvelli eftir framkvæmdir við höfnina

flugvallarljos nesk 1Vatn flæddi inn á flughlað Norðfjarðarflugvallar í miklum rigningum í mánuðinum. Bæjaryfirvöld leita leiða til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.Vatnsstaða við völlinn virðist hafa hækkað eftir framkvæmdir við höfnina.

„Við töldum að framkvæmdirnar myndu ekki hækka vatnsyfirborðið á leirunum svona mikið," segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar en unnið hefur verið að stækkun Norðfjarðarhafnar síðustu mánuði.

Í minnisblaði verkfræðistofunnar Mannvits kemur fram að breytingar árfarvegi við flugstöðina virðist hafa valdið því að meiri tregða sé á vatnsrennsli sem líklega valdi hærri vatnsstöðu norðan flugbrautarinnar.

Svæðið er lágt og gætir áhrifa sjávarfalla vestur fyrir flugvöllinn. Vatnsstaða sunnan og vestan megin við völlinn hefur verið há í rigningum í haust.

Fyrir tveimur vikum flæddi inn á flughlaðið en 120 mm úrkoma mældist sólarhringinn á undan.

„Aðstæður hafa verið óvenjulegar en veðið getur komið aftur næsta haust. Öryggisins vegna virðist þurfa að fara í einhverjar framkvæmdir til að tryggja að ekki flæði yfir flugvöllinn í svona rigningum," segir Páll Björgvin.

Frekari mælinga er þörf áður en tillögur verða lagðar fram en verið er að koma fyrir síritandi vatnshæðarmælum til að meta hæðarlegu vatns og samspil sjávarfalla og rigninga.

Norðfjarðarflugvöllur. Mynd: Kristín Hávarðsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar