Tímabært að endurskoða tekjuáætlun lögregluembættisins á Austurlandi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, segir að endurskoða þurfi sértekjuáætlun lögreglustjóraembættisins á Austurlandi sem tekur til starfa um áramót. Hann kveðst hafa fulla trú á að þjónusta embættanna verði svipuð og hún er nú.Þetta kemur fram í svari ráðherrans við fyrirspurn sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, lagði fram á Alþingi fyrir skemmstu.
Í dag eru tvö sýslumannsembætti á Austurland, á Seyðisfirði og Eskifirði og fara þeir einnig með yfirstjórn löggæslunnar. Um áramót verður allt Austurland sameinað í einu sýslumannsembætti með aðalstöð á Seyðisfirði og lögregluembætti með aðalstöð á Eskifirði.
Í svari Sigmundar segir að undirbúningur að stofnun lögregluembættanna sé hafinn og miði vel. Ekki sé gert ráð fyrir miklum breytingum á starfsstöðvum.
Kynnt hefur verið fram drög að reglugerð um umdæmi og starfsstöðvar en samkvæmt henni mun Austur-Skaftafellssýsla flytjast undir lögreglustjórann á Suðurlandi en það hefur síðustu ár tilheyrt Eskifjarðarumdæminu.
Að austan hefur borið á gagnrýni á fjármagn til embættanna og bent á að lögreglustjóraembættið taki við töluverðum uppsöfnuðum halla sem ekki sé gert ráð fyrir að taka á.
Sigmundur sagði að þjónusta lögregluembættanna ætti að vera svipuð og nú, „jafnvel betri". Skipulagsbreytingarnar auki sveigjanleika í starfi lögregluliðsins og rekstrarumgjörðin verði sterkari með stærri rekstrareiningum.
Fjárveitingar eigi að duga til þess en tímabært sé þó að skoða sértekjuáætlun embættisins á Austurlandi. Hún byggi að hluta á sértekjuáætlun sýslumannsins á Seyðisfirði sem síðast hafi verið endurskoðun þegar embættið hafði „umtalsverðar tekjur vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar."
Í andsvari sínu sagði Bjarkey að gott væri að heyra að til stæði að endurskoða áætlunina á milli umræðna um fjárlög. Þá sé gott að vita til þess að staða lögreglumanns á Seyðisfirði hafi verið tryggð.