Búið að sjósetja Venus NS
Nýtt uppsjávarveiðiskip HB Granda, Venus NS, var sjósett í skipasmíðastöð í Tyrklandi í gær. Stefnt er að því að skipið verði tilbúið til afhendingar í apríl.Frá þessu er greint á vef HB Granda en fyrirtækið er með umfangsmikla starfsemi á Vopnafirði og benda einkennisstafirnir NS til að þar verði heimahöfn skipsins.
Celiktrans skipasmíðastöðin í Istanbúl vinnur nú að smíði tveggja nýrra uppsjávarveiðiskipa fyrir HB Granda og er Venus sá fyrri.
Þá hefur HB Grandi einnig samið við tyrknesku skipasmíðastöðina um smíði þriggja nýrra ísfisktogara sem afhenda á árin 2016 og 2017.
Af þeim sökum hefur fyrirtækið sent Vopnafjarðarhreppi erindi þar sem bent er á að stækka þurfi höfnina þar til að nýju skipin geti athafnað sig.
Venus NS kominn á flot. Mynd: HB Grandi/Celiktrans