Dæmdur fyrir að kýla tönn úr öðrum með hnefahöggi
Héraðsdómur Austurlands dæmdi nýverið karlmann á þrítugsaldri í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að valda öðrum manni verulegum áverkum með hnefahöggi í andlitið. Tönn í efri gómi losnaði úr í heilu lagi og önnur kýldist inn.Atvikið átti sér stað við skemmtistað á Eskifirði í vor. Ákærði neitaði ekki sök en hélt því fram að höggið hefði verið í sjálfsvörn.
Hann hélt því fram að hann hefði verið gripinn hálstaki aftan frá meðan annar maður hefði kýlt hann. Hans karakter væri ekki að flýja svo hann hefði boðist til að slást við árásarmennina. Ákærði hélt því fram að hann hefði kýlt þann sem hann kýldi hann en mundi ekki eftir að hann hefði hlotið áverka.
Dómurinn hafnaði rökum hans um nauðvörn því ósannað væri, miðað við framburð vitna að yfir honum vofað árás eða hann verið kýldur.
Honum hefði hins vegar haldið í jörðinni, þótt „flest bendi til að það hafi ekki verið að ósekju." Bæði vitni og lögreglumaður á vakt sem leit við á skemmtistaðnum fyrr um kvöldið báru um að ákærði hefði verið mjög ölvaður og virst „til alls líklegur" eða að leita að slagsmálum.
Eftir að honum var sleppt virðist hann hafa slegið í átt að brotaþola, sem ekki hafði tekið þátt í neinum átökum, og kýlt hann fyrirvaralaust í andlitið.
Dómurinn taldi hann hafa valdið brotaþola verulegum áverkum. Þar sem ákærði var með hreinan sakaferil var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var honum gert að greiða brotaþola rúmar 700 þúsund krónur í skaða- og miskabætur og málskostnað auk þess að greiða tæpar 240 þúsund krónur í sakarkostnað.